Heildarfjöldi frjókorna í júlí vel yfir meðallagi í Reykjavík
Heildarfjöldi frjókorna í Reykjavík varð rúmlega 2000 frjó/m3, sem er vel yfir meðallagi, en nær þó ekki sömu hæðum og í fyrra þegar þau voru tæplega 4000 frjó/m3. Frjótala grasa varð hæst þann 18. júlí en daginn eftir voru tún í nágrenni frjógildrunnar slegin og minnkaði frjómagnið þá umstalsvert.
Frjótími grasa hófst 10. júní í Reykjavík en síðan þá hefur ekki fallið úr dagur án grasfrjóa í lofti. Frjótalan fór yfir hundrað þrisvar sinnum í mánuðinum, í fyrsta skipti þann 16. júlí, sem er viku seinna en í fyrra. Súrufrjó hafa verið samfellt í lofti frá 11. júní til 24. júlí, þau hafa mælst stopult eftir að slegið var.
Heildarfjöldi frjókorna á Akureyri í júlí (787 frjó/m3) reyndist í meðallagi (742 frjó/m3). Það sem af er sumri hafa rúmlega 20% grasfrjóa meðalárs mælst á Akureyri og eiginlegt hámark er enn ekki komið fram. Líkt og í fyrra eru því miklar líkur á því að ágúst verði aðalgrasmánuður sumarsins fyrir norðan.