Flokkun útbreiðslumynstra íslensku flórunnar og nýjar rannsóknaraðferðir

28.07.2014
Holtasóley - Dryas octopedala
Mynd: Erling Ólafsson
Holtasóley.

Sérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands hafa nýlega beitt nýjum aðferðum við flokkun útbreiðslumynstra íslensku flórunnar og samanburð þeirra við ýmsa umhverfisþætti. Niðurstöður þessara rannsókna voru birtar nýlega í alþjóðlegu vísindariti, PLoS ONE.

Við þessar rannsóknir hafa sérfræðingarnir notað heimildir um útbreiðslu plantna á Íslandi sem safnað hefur verið síðan í lok 19. aldar. Bæði grasafræðingar og áhugamenn um útbreiðslu plantna hafa komið að söfnun þessara gagna sem ná til alls landsins. Þökk sé bæði þessum einstæða gagnagrunni og einnig nýþróaðra aðferða við greiningu slíkra gagna hefur tekist að skilgreina 10 mismunandi útbreiðslumynstur villtra plantna á Íslandi. Einnig var leitað svara við þeirri spurningu hvaða umhverfisþættir væru líklegastir til að ákvarða þessi mynstur. Niðurstöðurnar sýna að umhverfisþættir sem tengjast hitastigi hafa mest áhrif á útbreiðslumynstur íslensku flórunnar.  Auk þess virðist sem landslagsform gegni mikilvægu hlutverki. Athyglisvert er að jarðgrunnur virðist hafa lítil áhrif við mótun útbreiðslumynstra hér, og hefur Ísland þar nokkra sérstöðu meðal Evrópulanda.

Svipaðar rannsóknir hafa verið gerðar í mörgum löndum Evrópu síðustu tvær aldir en þá voru útbreiðslumynstur ætíð borin saman við kortlagða umhverfisþætti og algjörlega notast við huglægt mat sérfræðinga. Í þessari rannsókn var rýnt í gögnin með nýjustu aðferðum til að fá hlutlægari niðurstöður sem síður væru háðar huglægu mati.

Niðurstöðurnar munu hafa verulega þýðingu við túlkun útbreiðslumynstra með tilliti til umhverfisþátta, bæði á Íslandi og einnig víðar á norðurhveli, og einnig til samanburðar við eldri og huglægari aðferðir.  

Greinina má nálgast á vef PLoS ONE.