Vetrarfuglatalning 2015

17.12.2015
Æðarbliki
Mynd: Daníel Bergmann
Æðarbliki á flugi.

Árleg vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands, sú 64. í röðinni, fer fram helgina 9.–10. janúar næstkomandi. Markmið vetrarfuglatalninga er að kanna hvaða fuglategundir dvelja hér að vetrarlagi, meta hversu algengir fuglarnir eru og í hvaða landshlutum þeir halda sig.

Upplýsingar sem fást úr talningunum nýtast einnig til að fylgjast með langtímabreytingum á stofnum margra tegunda. Fuglar hafa verið taldir með þessum hætti frá 1952 af hundruðum sjálfboðaliða á alls 357 stöðum um land allt. Alls eru talningarnar 5.275 og 6 milljónir fugla hafa verið skráðir. Nokkrir hafa talið í 50–60 ár og einn hefur tekið þátt í öllum talningum frá upphafi en það er Hálfdán Björnsson á Kvískerjum í Öræfum.

Æður er útbreidd með ströndum fram allt í kringum land og er sú tegund sem hefur verið algengust í vetrarfuglatalningum. 

 

Varpútbreiðsla æðarfugls

Æður er útbreidd með ströndum fram um allt land.

Æðarfugli virðist hafa fjölgað nokkuð jafnt og þétt frá því um 1950 og fram til aldamóta, en fækkað lítið eitt síðan.

Vísitala æðarfugls

Vísitala æðarfugls.

Samantekt talninga 2002–2014 

Niðurstöður talninga 2015 verða settar inn á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands um leið og þær berast.

Nánari upplýsingar um einstök talningarsvæði og fleira veita Kristinn Haukur SkarphéðinssonGuðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage.