Kristinn J. Albertsson látinn

08.03.2016

Kristinn J. Albertsson jarðfræðingur lést á Líknardeild Landspítalans 1. mars síðastliðinn, 68 ára að aldri. Hann verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, þriðjudaginn 8. mars, kl. 13. Kristinn var starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 1999 þar til hann lét af störfum í lok júní 2015.

Kristinn J. Albertsson hóf störf við Náttúrufræðistofnun Íslands sem forstöðumaður Akureyrarseturs stofnunarinnar í mars 1999. Hann kom ferskur að stjórn setursins og innleiddi nútímalegri stjórnunarhætti en tíðkast höfðu. Þekking hans og reynsla af vísindalegu starfi, sem hann hafði öðlast í Háskóla Íslands, Háskólanum í Cambridge í Englandi og á Iðntæknistofnun kom að góðu gagni, sem og menntun á sviði bókhalds og rekstrar. Kristinn var mikill áhugamaður um að bæta vinnuaðstöðu starfsmanna og innleiða nýjungar í tölvumálum og var ólatur við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Skömmu eftir aldamótin síðustu komu upp hugmyndir um að sett yrði á fót rannsóknahús í tengslum við Háskólann á Akureyri sem myndi hýsa ýmsar rannsóknastofnanir ríkisins sem störfuðu á Akureyri, meðal annars Náttúrufræðistofnun Íslands. Kristinn tók að sér að sinna undirbúningi fyrir hönd stofnunarinnar og gerði það með miklum sóma. Framtíðarsýn hans var skýr og hann gætti hagsmuna Akureyrarsetursins vel í öllum samningum um nýja húsnæðið. Árangurinn var líka góður eins og sjá mátti þegar setrið flutti í Borgir – Rannsóknahús hinn 1. október 2004.

Kristinn lét af störfum á síðastliðnu ári og hugðist helga sig eigin áhugamálum. Örlögin gripu í taumana þegar hann veiktist og síðustu mánuði barðist Kristinn við illvígan sjúkdóm. Eftirlifandi kona Kristins er Sigríður Ágústsdóttir leirkerasmiður. Þau eiga eina uppkomna dóttur.