Skrifstofa NOBANIS til Náttúrufræðistofnunar Íslands

09.11.2016
Skógarkerfill
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarkerfill var fluttur til landsins sem garðplanta en er nú skilgreindur sem ágeng tegund. Tegundin er stórvaxin, myndar þéttar breiður, framleiðir mikið fræ og dreifist hratt út.    

Hinn 1. nóvember síðastliðinn tók Náttúrufræðistofnun Íslands tímabundið við rekstri skrifstofu NOBANIS (European Network on Invasive Alien Species) en hún var áður vistuð hjá Dönum og síðar Svíum. Verkefni skrifstofunnar snúast fyrst og fremst um samskipti, upplýsingagjöf, uppfærslu og viðhald á gagnagrunni og umsjón með vef.

Forsíða vefs NOBANISNOBANIS var sett á laggirnar árið 2004 sem samstarfsverkefni Norðurlandaþjóða og Eystrasaltsríkjanna, styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Megintilgangur verkefnisins er að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra framandi tegunda og að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir og gera þær aðgengilegar á vefnum. Stofnað var til verkefnisins í kjölfar tilmæla sem lögð voru fram á 6. fundi aðildarþjóða samningsins um líffræðilega fjölbreytni árið 2002. Á þeim fundi var barátta gegn ágengum framandi tegundum sett í forgang og áhersla lögð á samvinnu, bæði innan ríkja og á alþjóðavettvangi.

Frá því að verkefnið hófst hefur þátttökulöndum fjölgað og eru þau nú um 20 talsins: Austurríki, Hvíta-Rússland, Belgía, Tékkland, Danmörk, Eistland, Færeyjar, Finnland, Þýskaland, Grænland, Ísland, Írland, Lettland, Litháen, Holland, Noregur, Pólland, Slóvakía, Svíþjóð og evrópski hluti Rússlands. Búist er við að fleiri lönd bætist í hópinn.

Pawel Wasowicz, grasafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands og fulltrúi stofnunarinnar í verkefninu, hefur umsjón með rekstri skrifstofu NOBANIS.