Ársfundur og útgáfa ársskýrslu

29.05.2017
Jón Gunnar Ottósson afhendir Sigurði H. Magnússyni gullmerki Náttúrufræðistofnunar Íslands á ársfundi 2017.
Mynd: Erling Ólafsson

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri, afhendir Sigurði H. Magnússyni, gróðurvistfræðingi, gullmerki Náttúrufræðistofnunar Íslands á ársfundi 2017.

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar var haldinn í 24. sinn miðvikudaginn 24. maí síðastliðinn á Hótel Reykjavík Natura. Á honum voru flutt ávörp og erindi um verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.

Á ársfundinum flutti Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra ávarp. Hún ræddi meðal annars um náttúruna, auðlindir hennar og mikilvægi góðrar þekkingar, því þekking væri stærsta forsenda þess að átta sig á mikilvægi náttúruverndar með sjálfbærni í huga. Í því samhengi nefndi hún að störf Náttúrufræðistofnunar Íslands væru mikilvægur skerfur í að viðhalda og bæta þekkingarbrunn okkar um náttúru landsins. Nýútgefin rit stofnunarinnar, Vistgerðir á Íslandi og Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi, mörkuðu ákveðin tímamót hvað varðar vitneskju um náttúru landsins, vinnu við verndun hennar og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni.

Ráðherra ræddi einnig nýju náttúruverndarlögin sem setja Náttúrufræðistofnun Íslands fjölmörg ný verkefni á herðar, skuldbindingar Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, rammaáætlun, afmörkun mikilvægra svæða í hafinu umhverfis landið og verndun miðhálendisins. Þá beindi ráðherra orðum sínum sérstaklega til forstöðumanna og starfsmanna stofnana ráðuneytisins og óskaði eftir því að betri samvinnu þeirra á milli þar sem unnið væri eftir samþættri stefnu.

Næst flutti Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands skýrslu. Hann nefndi að árið 2016 markaði tímamót í starfsemi stofnunarinnar þar sem lokið var við að skilgreina, lýsa og kortleggja vistgerðir á þurrlendi, í fersku vatni og fjöru, ásamt því að endurmeta fuglastofna og kortleggja mikilvægustu fuglasvæði á landinu. Einnig var opnaður nýr vefur sem er tengdur gagnagrunnum stofnunarinnar og skapar margvíslega nýja möguleika á að miðla upplýsingum um náttúru landsins. Að öðru leyti vísaði forstjóri til ársskýrslu sem veitir sýn á starfsemi ársins. Í ræðu sinni lagði forstjóri áherslu á að horfa til framtíðar og þeirra nýju verkefna sem stofnuninni ber að taka að sér samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum. Verkefnin eru yfirgripsmikil og stór viðbót við fyrri verkefni og því mikilvægt að sjá til þess að stofnunin hafi mannskap, aðstöðu og fjárhagslega burði til að geta sinnt því sem til er af henni ætlast.

Á eftir forstjóra flutti Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands ávarp og fjallaði hún um vöktun og rannsóknir á íslenska hreindýrastofninum.

Eftir kaffihlé flutti Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur tvö erindi. Það fyrra fjallaði um ritið Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi og efnistök þess en seinna erindið fjallaði um Breiðafjörð, alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur hélt erindi um nýtt stofnmat mófugla á grunni vistgerða. Síðasta erindi ársfundarins var flutt af Aagot Óskarsdóttur en hún ræddi um nýju náttúruverndarlögin og þau fjölmörku verkefni sem þau fela í sér. Hún benti á að þau kölluðu á mannafla með góða þekkingu, fjármagn og einurð.

Á ársfundinum var gullmerki Náttúrufræðistofnunar Íslands veitt í 10. skipti, en það hljóta einstaklingar sem hafa átt langt og farsælt starf á stofnuninni og eru að ljúka því vegna aldurs. Að þessu sinni var merkið veitt Sigurði H. Magnússon gróðurvistfræði, sem starfað hefur hjá stofnuninni síðan 1997.

Ársfundurinn var tekinn upp og sendur út á Youtube. Þar verður hægt að nálgast öll erindi sem flutt voru.

Ársskýrsla stofnunarinnar fyrir árið 2016 er efnismikil og þar er fjallað um ýmis verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.