Umhverfis- og auðlindaráðherra í heimsókn

05.02.2018
Umhverfis- og auðlindaráðherra í heimsókn hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2. febrúar 2018
Mynd: María Harðardóttir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Kristján Jónasson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri skrifstofu landgæða hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Orri Páll Jóhannsson aðstoðarmaður ráðherra, Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Sif Konráðsdóttir aðstoðarmaður ráðherra og Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri.

Nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, heimsótti Náttúrufræðistofnun Íslands síðastliðinn föstudag í þeim tilgangi að kynna sér hlutverk og starfsemi stofnunarinnar og hitta starfsfólk. Með ráðherra í för voru aðstoðarmenn hans, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri skrifstofu landgæða hjá ráðuneytinu og upplýsingafulltrúi.

Ráðherrann átti fund með forstjóra og forstöðumönnum stofnunarinnar þar sem hlutverk, starfsemi og helstu verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands voru kynnt og rædd. Að fundi loknum var gengið um stofnunina, húsnæðið skoðað og starfsemin kynnt frekar. Ráðherrann gaf sér góðan tíma og lagði ríkan hug á viðfangsefni stofnunarinnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum 30. nóvember síðastliðinn og tók hann við lyklum að ráðuneytinu úr höndum fráfarandi ráðherra, Bjartar Ólafsdóttur, 1. desember. Aðstoðarmenn ráðherra eru Sif Konráðsdóttir og Orri Páll Jóhannsson.