Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands og útgáfa ársskýrslu

23.04.2018
Guðmundur Guðmundsson starfandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands afhendir Óskari J. Sigurðssyni heiðursviðurkenningu stofnunarinnar
Mynd: Sigmar Methúsalemsson

Guðmundur Guðmundsson starfandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands afhendir Óskari J. Sigurðssyni heiðursviðurkenningu stofnunarinnar fyrir langt og óeigingjarnt starf við fuglamerkingar og markvert framlag til fuglarannsókna.

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar var haldinn í 25. sinn miðvikudaginn 18. apríl síðastliðinn á Hótel Reykjavík Natura. Á honum voru flutt ávörp og erindi um verkefni sem unnið hefur verið að á stofnuninni.

Á ársfundinum flutti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra ávarp. Ráðherra fjallaði um nokkur áhersluatriði í stjórnarsáttmálanum og hann hyggst beita sér fyrir á kjörtímabilinu. Þar ber hæst loftslagsmál og náttúruvernd. Í loftslagsmálum eru sett fram metnaðarfull markmið, annars vegar um 40% minnkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990 (samanber Parísarsamkomulagið) og hins vegar að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 (markmið ríkisstjórnarinnar). Þá er fyrirhugað átak í að ljúka friðlýsingum svæða, sem ákveðið hefur verið að friðlýsa, en þar á meðal eru svæði sem heyra undir verndarflokk rammaáætlunar og svæði á náttúruverndaráætlun. Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár (B-hluta) verður lögð fram  þingveturinn 2018–2019. Meðal annarra áhersluatriða sem ráðherra nefndi, var að kanna efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða; að haustið 2018 verði lagt fram lagafrumvarp um nýja stofnun sem heldur heildstætt utan um verkefni náttúruverndar; að landvarsla og uppbygging innviða á ferðamannastöðum verði efld; að villidýralögin verði endurskoðuð; og að jarðfræðirannsóknir á Íslandi verði auknar. Ráðherra þakkaði starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir störf á liðnu starfsári og hvatti þá til áfram til dáða.

Næst flutti Guðmundur Guðmundsson starfandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands skýrslu. Hann fór yfir hlutverk stofnunarinnar og helstu verkefni. Nokkur helstu verkefnin á árinu 2017  tengdust  náttúruverndarlögunum,  eins og að hafa umsjón með náttúruminjaskrá. Í þeirri vinnu felst meðal annars að meta ákjósanlega verndarstöðu vistkerfa, vistgerða, tegunda og jarðminja, vakta ástand þeirra og leggja til net verndarsvæða. Í tengslum við þetta mun stofnunin leggja fram áætlun um flokkun og kortlagningu jarðminja árið 2018 enda er slíkt nauðsynleg forsenda þess að geta metið verndargildi jarðminja. Þá nefndi Guðmundur verulega aukið umsagnahlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands og erlent samstarf á sviði umhverfis- og náttúruverndar. Að lokum var farið yfir húsnæðismál stofnunarinnar, útgjaldaskiptingu, fjölda og aldursdreifingu starfsmanna, endurnýjun tækjabúnaðar, minnkun rekstrarfjár og fækkun ársverka.

Sindri Gíslason forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlandsfjallaði um framandi sjávarlífverur við Íslands. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur flutti erindi um kortlagningu selalátra við strendur Íslands, Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur hélt erindi um verndun jarðminja, Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur fjallaði um verndun vistgerða og Starri Heiðmarsson fléttufræðingur ræddi um lykilþætti í náttúru Íslands og möguleika á langtímavöktun.

Heiðursviðurkenning Náttúrufræðistofnunar Íslands var veitt í fjórða sinn. Að þessu sinni var Óskar J. Sigurðsson heiðraður fyrir langt og óeigingjarnt starf við fuglamerkingar og markvert framlag til fuglarannsókna.

Ársfundurinn var tekinn upp og sendur út á Youtube. Þar er hægt að nálgast öll erindi sem flutt voru.

Í ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar 2017 er fjallað um helstu verkefni ársins og rekstrarþætti.