Frjómælingar í apríl og maí

Frjómælingar hófust á Akureyri 28. mars. Einungis eitt frjókorn mældist mars, í apríl var fjöldi frjókorna í meðallagi, 40 frjó/m3, en í maí var óvenju mikið af frjókornum í lofti eða 691 frjó/m3 (meðaltalið er 488 frjó/m3). Mest var um asparfrjó og voru þau í hámarki rétt eftir miðjan maímánuð. Undir lok mánaðarins, 25. maí, voru asparfrjó hætt að mælast og birkifrjó tóku við. Frjótími birkis er 2–4 vikur og því má áfram gera ráð fyrir birkifrjóum í lofti.

Í Garðabæ hófust frjómælingar 19. mars. Fyrsta frjókornið, elrifrjó, kom í gildru 21. mars og urðu þau samtals fjögur þann mánuðinn. Í mars og apríl mældist fjöldi frjókorna 48 frjó/m3 og var þar einkum um að ræða lyng- og asparfrjó. Í maí fjölgaði frjókornum dálítið en heildarfjöldi var þó talsvert undir meðallagi eða 106 frjó/m3 (meðaltalið er 323 frjó/m3) enda var maí með eindæmum úrkomumikill. Fyrrihluta mánaðar voru asparfrjó algengust en þegar leið á mánuðinn tóku birkifrjó við. Eins og á Akureyri má búast við birkifrjóum fyrstu vikurnar í júní ef veður verður þurrt og hýtt.

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2018 (pdf)