Frjómælingar í júlí

06.08.2020

Heildarfjöldi frjókorna á Akureyri í júlí var mikið undir meðallagi en langflest þeirra voru grasfrjó. Heildarfjöldi frjókorna í Garðabæ var aðeins yfir meðallagi í júlí og voru langflest þeirra grasfrjó sem mældust vel yfir meðallagi. Áfram má búast við grasfrjóum í lofti í ágústmánuði, bæði á Akureyri og í Garðabæ, ef veðurskilyrði verða þeim hagstæð.

Akureyri

Samkvæmt Veðurstofu Íslands var hiti í júlí undir meðallagi síðustu 10 ára en úrkoma og vindhraði nálægt meðaltali. Heildarfjöldi frjókorna var 511 frjó/m3 eða mikið undir meðaltali 1998–2019 sem er 916 frjó/m3. Frjókorn voru samt samfellt í lofti allan mánuðinn og voru flest 12. júlí, 61 frjó/m3. Fjöldi frjókorna fór bara í þetta eina skipti yfir 50 frjó/m3.

Langflest frjókorna voru grasfrjó, 348 frjó/m3 en meðaltal þeirra í júlí er 682 frjó/m3. Þau voru 68% allra frjókorna í júlí og fóru hæst í 44 frjó/m3 þann 12. júlí. Áfram má búast við grasfrjóum í lofti í ágústmánuði ef veðurskilyrði eru þeim hagstæð.

Súrufrjó mældust flesta daga í júlí og fóru hæst í 7 frjó/m3 þann 8. júlí. Heildarfjöldi súrufrjóa var 52 frjó/m3, næstflest á eftir grasfrjóum.

Minna mældist af öðrum tegundum frjókorna.

Frjómælingar á Akureyri í júlí 2020

Myndritið sýnir gras- og súrufrjó ásamt heildarfrjótölu í júlí á Akureyri. Mest var af frjóum 12. júlí eða 61 frjó/m3. Frjótala er mælieining fyrir fjölda frjókorna í andrúmslofti og segir okkur hver meðalfjöldi frjókorna var í einum rúmmetra lofts viðkomandi sólarhring.

Frjómælingar í Garðabæ í júlí 2020

Myndritið sýnir gras- og súrufrjó ásamt heildarfrjótölu í júlí í Garðabæ. Mest var af frjóum þann 2. júlí, 248 frjó/m3. Frjótala er mælieining fyrir fjölda frjókorna í andrúmsloftinu og segir okkur hver meðalfjöldi frjókorna var í einum rúmmetra lofts viðkomandi sólarhring.

Garðabær

Samkvæmt Veðurstofu Íslands var hiti og úrkoma í júlí undir meðaltali en vindhraði nærri meðallagi. Heildarfjöldi frjókorna í júlí í Garðabæ var 1149 frjó/m3, en meðaltalið fyrir júlí er 932 frjó/m3. Frjó mældust alla daga mánaðarins og þrisvar fór frjótalan yfir 100, hæst 2. júlí þegar mældust 248 frjó/m3. Það voru aðallega grasfrjó sem mældust þann dag.

Langflest frjókornanna í júlí voru grasfrjó, 858 frjó/m3, mikið yfir meðaltalinu sem er 651 frjó/m3. Þau voru tæp 75% allra frjókorna í júlí. Flest grasfrjó mældust 2. júlí eða 207 frjó/m3.

Súrufrjó voru næstalgengust á eftir grasfrjóum, eða 66 frjó/m3. Þau mældust flesta daga og fóru hæst í 8 frjó/m3 þann 5. júlí.

Furufrjókorn voru 43 frjó/m3. Af öðrum frjókornum mældist minna.

Grasfrjó geta mælst í ágúst í töluverðu magni ef veðurskilyrði eru þeim hagstæð.

Fréttatilkynning um frjómælingar í júlí 2020

Nánar um frjómælingar.