Dagur íslenskrar náttúru og náttúrufarsrannsóknir

16.09.2020

Á degi íslenskrar náttúru, sem haldinn er í dag, 16. september, er tilefni til að segja frá rannsóknum á náttúru Íslands sem unnið hefur verið að í vor og sumar á Náttúrufræðistofnun Íslands. Vísindamenn stofnunarinnar hafa farið víða og eru að týnast í hús þessa dagana.

Náttúruminjaskrá

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með tilnefningu svæða á náttúruminjaskrá og í sumar voru farnar vettvangsferðir til að vinna að tillögum og rannsaka frekar svæði sem þegar hafa verið tilnefnd.

Jarðfræðingar fóru um Snæfellsnes til að leggja mat á verndargildi jarðminja og skoðuðu m.a. svæði eins og Berserkjahraun, Rauðuskriður, nútímahraun og gíga í Hnappadal, Hítardal, ölkeldur og laugar. Einnig var farið um Húnavatnssýslur þar sem m.a. Síká við Hrútafjarðarháls, Borgarvirki, Kolugljúfur, fossar í Vatnsdal, Kálfshamar, Ketubjörg, Bólugil og Kotagil voru skoðuð. Þá voru einnig skoðuð setlög með steingervingum við Hreðavatn í Borgarfirði, og í Húsavíkurkleif og Tröllatungu í Strandasýslu.

Rauðkúlur, Hólmshraun og Tröllakirkja í Hítardal
Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Austan við Hítarvatn eru gjallgígarnir Rauðukúlur og Hólmshraun sem mynduðust eftir ísöld og eru yngri en 4000 ára. Hæsti tindur er Tröllakirkja, 941 m, júní 2020.

Líffræðingar fóru á Melrakkasléttu í júlí til að vinna nákvæmari kortlagningu á fjöruvistgerðum en áður hafði verið gerð.

Fjara á Melrakkasléttu
Mynd: Sunna Björk Ragnarsdóttir

Fjörur á Melrakkasléttu, júlí 2020.

Vöktun náttúruverndarsvæða vegna ágangs ferðamanna

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með verkefni sem hófst árið 2019 þar sem metinn er ágangur ferðamanna á náttúruverndarsvæðum. Verkefnið er unnið í náinni samvinnu við náttúrustofur á öllu landinu, Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun. Meginþungi vettvangsvinnu er hjá náttúrustofunum og landvörðum en þó eru nokkur svæði sem sérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands könnuðu. Í verkefninu er lögð áhersla á ljósmyndun af svæðunum, bæði á jörðu niðri og úr lofti með dróna, en þegar skoðaðar eru eldri myndir af þeim sést að ljósmyndir veita góðar upplýsingar um ágang og aðrar náttúrufarsbreytingar.

Farið var á nokkur svæði á Suðurvesturlandi með sérfræðingum á Náttúrustofu Suðvesturlands. Í Seltúni á Reykjanesi skoðuðu sérfræðingar álag á jarðminjar og gróður á jarðhitasvæðinu, mátu hvort álag ylli skemmdum og hvort göngustígar önnuðu umferð. Í Búrfellsgjá var álag á jarðminjar skoðað og framandi plöntutegundir metnar og staðsettar. Jarðminjar og gróður var skoðaður í Grændal og Reykjadal. Gert er ráð fyrir að vakta svæðin með ljósmyndum og mælingum á jarðhitavistgerðum.

Um miðjan maí, í seinni hluta júlí og í ágústlok fóru fram fuglatalningar á sjó og í fjörum við Blautós og Innstavogsnes vegna verkefnisins um ágang ferðamanna.

Jarðhiti í Grændal
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Á vettvangi í Grændal, júní 2020.

Í ágúst var gerð úttekt á Norðausturlandi með sérfræðingum á Náttúrustofu Norðausturlands. Svæðin sem voru tekin út með tilliti til ágangs ferðamanna voru Leirhnjúkur, Víti, Námafjall, Hverarönd, Dimmuborgir, Skútustaðagígar, Tjörneslögin og Þeistareykir. Álag á gróður og jarðminjar var metið og ákvörðun tekin um myndavöktunarstaði og gróðursnið lögð út til að mæla áhrif ágangs á jarðhitavistgerðir.

Tjörneslögin
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Tjörneslögin, ágúst 2020.

Í september fóru sérfræðingar í vettvangsferð að Geysi, Gullfossi, Gjánni, Brennisteinsöldu og Rauðufossum þar sem gerð var forúttekt á gróðri og jarðminjum. Valdir voru fastir staðir til myndvöktunar og gróft mat lagt á álag og ástand svæðanna.

Göngustígur við Brennisteinsöldu 2008
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Göngustígur við Brennisteinsöldu í júlí 2008.

Göngustígur við Brennisteinsöldu 2020
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Göngustígur við Brennisteinsöldu í september 2020.

Surtsey

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með vöktun á jarðfræði og lífríki í Surtsey að tilhlutan Surtseyjarfélagsins.

Jarðfræðileiðangrar eru gerðir út annað hvert ár og var ekki farið í ár. Líffræðileiðangur var gerður út í júlí. Gróður í föstum reitum í mismunandi landgerðum var mældur. Í fuglavarpinu er gróður grösugur og fer graslendið stækkandi. Þar sjást vel áburðaráhrifin frá fuglum sem búa til þykkan og grösugan gróður og eru í andstæðu við rýr svæði í kring. Æðplöntutegundir voru skráðar og fylgst með fuglavarpi. Rannsóknir voru gerðar á smádýrum í mælireitum og fallgildrum, undir steinum og á rekaviði.

Hreiðurtalningar í Surtsey
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Hreiðurtalningar á tanganum í Surtsey, júlí 2020.

Jarðfræði

Í ágúst var unnið að rannsóknum í Þistilfirði og Bakkaflóa í samstarfi við jarðfræðinga við Háskóla Íslands. Stórir ísstraumar í ísaldarjöklinum frá síðasta jökulskeiði voru kortlagðir en tilgangurinn er að afla þekkingar um síðasta jökulskeið, ísaldarjökulinn, hvernig hann hörfaði og hvers vegna. Einnig var unnið að kortlagningu lausra jarðlaga.

Jökulsorfnar klappir á Langanesi
Mynd: Skafti Brynjólfsson

Jökulsorfnar klappir á Langanesi, ágúst 2020.

Í lok ágúst og byrjun september var unnið að kortlagningu á lausum jarðlögum á Tröllaskaga en unnið er að jarðfræðikorti af lausum jarðlögum af Tröllaskaga. Í september verður farið í jöklamælingar á Tröllaskaga til að fylgjast með því hvernig smájöklar þróast, en breytingar á þeim eru ekki endilega í samræmi við það sem gerist hjá stóru jöklum landsins. Vöktun jökla á Tröllaskaga er viðvarandi vöktunarverkefni.

Bægisárjökull á Tröllaskaga
Mynd: Skafti Brynjólfsson

Bægisárjökull á Tröllaskaga í haustbúningi, hrjóstrugur jökulruðningur í forgrunni, ágúst 2019.

Um miðjan ágúst fóru jarðfræðingar á Ófeigsfjarðarheiði þar sem haldið var áfram rannsóknum frá árinu 2019 á útbreiðslu trjáholufara í hraunlögum sem mynduðust fyrir um 10–13 milljón árum. Auk þess voru skráðar jökulmenjar á svæðinu og fossaröðin í Eyvindarfjarðará var ljósmynduð og kortlögð. Trjáholur eru steingervingar sem njóta verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd 60/2013.

Trjáhola í Ófeigsfirði
Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Trjáhola í Ófeigsfirði, ágúst 2020.

Í ágúst unnu jarðfræðingar stofnunarinnar við kortlagningu berggrunns á Norðausturlandi en verkefnið er hluti af samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Íslenskra orkurannsókna. Svæðin sem könnuð voru í sumar eru Njarðvík, Stórurð, Fljótsdalshérað, Vopnafjörður, Smjörfjöll og Fagradalseldstöðin. Flogið var yfir hluta svæðanna og teknar ljósmyndir sem verða notaðar til að búa til módel til frekari rannsókna.

Stórurð og Dyrfjöll
Mynd: Birgir V. Óskarsson

Stórurð og Dyrfjöll, ágúst 2020.

Í júní var farið í vettvangsferð til að kortleggja berggrunn á Arnarvatnsheiði norðan Langjökuls.

Austurá á Holtavörðuheiði
Mynd: Birgir V. Óskarsson

Austurá á Holtavörðuheiði, júní 2020.

Gróður

Fylgst er með landnámi og framvindu gróðurs á jökulskerjum í Breiðumerkurjökli og í Esjufjöllum til þess að rannsaka hvernig líf nemur land. Í byrjun ágúst var farið í Maríusker og Bræðrasker í Breiðamerkurjökli þar sem greindur var gróður í föstum gróðurreitum. Í Bræðraskeri hefur vöktun farið fram frá árinu 1965 og í Maríuskeri frá árinu 2005 og eru mælingar teknar á fimm ára fresti. Hraðar breytingar má merkja á Breiðamerkurjökli, meðal annars er nú komið upp úr jöklinum nýtt, ónefnt sker í námunda við Bræðrasker. Skersins varð vart í leiðangri á jökulinn árið 2015 þegar það var rétt farið að gægjast út úr jöklinum en nú stóð það rúmlega 100 m upp úr ísnum og þegar komnar þangað allnokkrar tegundir æðplantna og mosa. Myndin hér fyrir neðan sýnir „dalverpi“ milli nýja skersins og Bræðraskers.

Jökulsker á Breiðamerkurjökli
Mynd: Starri Heiðmarsson

Dalverpi milli Bræðraskers og ónefnds skers, ágúst 2020.

Í júní og júlí var unnið að söfnun sýna af birkiplöntum í gömlum birkiskógum í Þórsmörk, á Flúðum, í Borgarfirði og á nokkrum stöðum á Norðurlandi. Gerðar eru raðgreiningar á sýnunum og erfðabreytileiki í hverjum birkiskógi greindur.

Birki í Vaglaskógi
Mynd: Pawel Wasowicz

Birki í Vaglaskógi, júní 2020.

Fundarstaðir plantna á válista eru vaktaðir reglulega til að kanna stöðu tegundanna á svæðunum og fylgjast með stofnbreytingum. Í júlí og ágúst var farið á þekkta fundarstaði válistaplantna í öllum landshlutum. Gróðurrannsóknir eru gerðar, stofnstærð metin, fjöldi eintaka talinn og metið hvort tegundin hefur fjölgað sér eða henni hefur hnignað og hvort hún blómstrar. Dæmi um vöktunarstaði sumarsins eru tveir fundarstaðir hlíðaburkna á Vestfjörðum, laugadeplu í Grændal og Landmannalaugum, vorstör á Krísuvíkursvæðinu og vatnsögn í Biskupstungum.

Hlíðaburkni í Ísafjarðardjúpi
Mynd: Pawel Wasowicz

Hlíðaburkni í Ísafjarðardjúpi, ágúst 2020.

Sveppafræðingur skrásetur tegundir og útbreiðslu sveppa á Íslandi, safnar upplýsingum um sveppi og búsvæði þeirra. Í september var farið í vettvangsferð á Suðvesturlandi og sveppir í graslendi við Garðskagavita, graslendi í Grafarvogskirkjugarði og barrskógi í Hamrahlíð í Mosfellsbæ skoðaðir og teknir til varðveislu í sveppasafni stofnunarinnar. Í Hamrahlíð fannst mýrasúlungur, Suillus flavidus, pípusveppur sem fannst árið 1978 við Rauðavatn en hafði ekki dreift sér víðar fyrr en nú síðasta áratuginn en þetta er fjórði fundarstaður tegundarinnar. Sumarið 2014 fannst Leotia lubrica, sem er gulur og hlaupkenndur asksveppur, á Mógilsá. Það var fyrsti fundur tegundarinnar hérlendis og sendi finnandinn sýnið í sveppasafnið. Nú sex árum síðar hafði sveppurinn breiðst út og óx á dálitlum bletti í skóginum. Íslenskt nafn sveppsins mun enda á hnáta en fyrri hlutinn hefur ekki verið ákveðinn en sveppurinn er einkennistegund fyrir stóran hóp asksveppa.

Hnátutegund við Mógilsá
Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Hnátutegund við Mógilsá, september 2020.

Frjómælingar hefjast í mars og standa yfir út september á hverju ári. Í hverri viku á tímabilinu voru frjógildrur á þaki stofnanna í Urriðaholti og á Akureyri tæmdar og magn frjókorna í andrúmslofti var talið og birt á vef stofnunarinnar.

Smádýr

Á hverjum fimmtudegi frá miðjum apríl fram í miðjan nóvember tæmir sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands fiðrildagildrur á Mógilsá og í Fljótshlíð, greinir fiðrildin og telur. Samstarfsaðilar á náttúrustofum og einstaklingar um allt land hafa gert slíkt hið sama í sínum umdæmum. Tilgangur fiðrildavöktunarinnar er að afla upplýsinga um fiðrildafánu landsins sem er undir áhrifum af hlýnandi veðurfari, breytinga á gróðurfari og náttúruhamförum eins og eldgosum.

Fiðrildavöktun í Fljótshlíð
Mynd: Matthías S. Alfreðsson

Fiðrildavöktun í Fljótshlíð, apríl 2020.

Skógarmítlar eru tiltölulega nýtt rannsóknarverkefni á Íslandi. Mítla er leitað á skilgreindum svæðum á staðlaðan hátt, þeim er safnað af farfuglum á vorin í samvinnu við Fuglarannsóknastöð Suðausturlands í Hornafirði og er einnig safnað af spendýrum. Umsjón með skráningu á útbreiðslu mítla fer fram á stofnuninni. Leitað er að sjúkdómsvöldum í mítlum í samstarfi við Public Health í Salisbury í Englandi og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Skógarmítill á mismunandi þroskastigi
Mynd: Erling Ólafsson

Skógarmítill á mismunandi þroskastigum, f.v.: egg, lirfa, tvö ungviði, fullorðið karldýr, fullorðið kvendýr, fullt af blóði.

Fuglar

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með vöktun fjölda fuglategunda en í mörgum tilvikum er um alþjóðlegar skuldbindingar að ræða. Megintilgangur vöktunarinnar er að fylgjast með stofnbreytingum og varpárangri.

Í maí og ágúst voru straumendur taldar við Tungufljót og Brúará í Biskupstungum, mófuglatalningar fóru fram á Mýrum og við Markarfljót í júní og helsingjar voru taldir í Vestur-Skaftafellssýslu í maí og júní. Árlegar talningar á margæs og grágæs verða í október og nóvember. Skarfastofninn er metinn árlega með reglulegum talningum og súlustofninn á fimm ára fresti. Náttúrufræðistofnun Íslands tók þátt í bjargfuglatalningum í Hælavíkurbjargi á vegum Náttúrustofu Norðausturlands í júní og júlí með sérfræðingum Náttúrustofu Vestfjarða.

Arnarstofninn er metinn árlega. Flogið var yfir þekkt óðöl í maí til að athuga hvort þau væru í ábúð og aftur í júlí til að kanna hvort varp hefði heppnast. Í júlí var farið á vettvang til að merkja ungana, þeir mældir og tekið úr þeim blóð til erfðarannsókna. Á nokkrum fuglum hefur verið komið fyrir senditækjum til að fylgjast með ferðum þeirra og sjá hvaða svæði þeir nýta sér og eru þeim mikilvæg. Vöktunin er unnin í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, Háskóla Íslands og heimamenn.

Hafarnarungi með senditæki
Mynd: Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Arnarungi með senditæki, júlí 2020.

Vöktun á hrafnavarpi á Suðvesturlandi fór fram í apríl til september. Hröfnum hefur fjölgað mikið á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 10 árum. Þeir hafa tekið upp nýja siði, verpa nú í æ ríkara mæli í trjám og þéttar á höfuðborgarsvæðinu en áður hefur þekkst.

Á Íslandi verpur skrofa einungis í Ystakletti á Heimaey og í nokkrum úteyja Vestmannaeyja. Fylgst er með um 20 hreiðrum í Ystakletti á hverju sumri og gagnaritar eru settir á fugla sem þeir bera yfir veturinn. Ábúðin er könnuð í maí og júní og gagnaritum skipt út. Loks er varpárangur mældur og ungar merktir í ágúst. Vöktunin hefur leitt í ljós að skrofa hefur veturstöðvar á hafi austan við Suður-Ameríku, í Suður-Argentínu. Hún kemur til Íslands í apríl og flýgur til vetrarstöðvanna í september.

Skrofur við Vestmannaeyjar
Mynd: Ingvar A. Sigurðsson

Skrofur við Vestmannaeyjar.

Rjúpnastofninn er vaktaður með talningum á óðalskörrum á vorin (apríl og maí), og síðan eru aldurshlutföll metin á varptíma (apríl–júní), síðsumars (mánaðamót júlí/ágúst) og á veiðitíma (nóvember). Umhverfisstofnun sér um að skrá rjúpnaveiði. Út frá gögnunum má ráða í stofnbreytingar og meta heildarstofnstærð og afföll rjúpunnar. Vöktunin er grunnur að veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Rjúpukarri á Tjörnesi
Mynd: Ólafur Karl Nielsen

Fullorðinn rjúpukarri á óðali á Tjörnesi, maí 2020.

Á Norðausturlandi hafa tengsl fálka og rjúpu verið rannsökuð frá árinu 1981. Gagna er aflað um stærð varpstofns fálka á rannsóknasvæðinu, tímasetningu varps, viðkomu og fæðu.

Fálki á óðali í Suður-Þingeyjarsýslu
Mynd: Ólafur Karl Nielsen

Fullorðinn fálki, karlfugl, á óðali í Suður-Þingeyjarsýslu, júní 2020.

Refur

Spendýrafræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands dvaldi á norðaustursvæði Hornstrandafriðlands í nokkrar vikur í mars og aftur í júní til júlí. Vettvangsvinnan er hluti af vöktun íslenska refastofnsins þar sem lagt er mat á stofnbreytingar á svæðinu. Fylgst var með pörun og óðalsmyndun melrakka, ábúðaþéttleika og gotstærð. Ástand fugla og lífríkisins almennt var jafnframt metið. Í ár var með í för háskólanemi sem safnaði saursýnum í þeim tilgangi að greina fæðuval refsins og leita að örplasti. Sýnin verða borin saman við sýni sem safnað var 1998 og 1999. Fjöldi og hegðun ferðamanna við greni og viðbrögð refa við þeim var rannsakað og er það hluti af vöktun náttúruverndarsvæða vegna ágangs ferðamanna.

Refur með fisk í kjafti á Hornströndum
Mynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir

Refur á Hornströndum, mars 2020.

Aðrar náttúrufarsrannsóknir

Á stofnuninni er einnig unnið að náttúrufarsrannsóknum vegna úttektar á svæðum vegna fyrirhugaðra framkvæmda eins og virkjana, vegagerðar og námuvinnslu. Sérfræðingar stofnunarinnar hafa rannsakað náttúrufar við Grjótháls, Lyklafellslínu, Hvassahraun, Krísuvík, Eldvörp og Blöndulínu 3. Sömuleiðis eru unnar langtímarannsóknir vegna áhrifa iðjuvera og mannvirkja og fylgst er með áfoki, öldurofi og gróðurframvindu við Blöndulón, fléttum á klöppum við iðjuver í Hvalfirði vegna loftmengunar, þungmálmum í mosa í nágrenni stóriðju auk þess sem fuglar á óshólmum Eyjafjarðarár eru taldir reglulega vegna flugvallar og flugumferðar. Einnig eru svæði rannsökuð vegna fyrirhugaðra skipulagsáætlana og voru gervigígarnir í Rauðhólum kannaðir. Sérfræðingar stofnunarinnar munu skrifa náttúrufarskafla í Árbók Ferðafélags Íslands 2021 og fóru í september í vettvangsferð upp með Markarfljóti frá Húsadal í Þórsmörk að Laufafell, með áherslu á Emstrur.

Á vef stofnunarinnar er yfirlit yfir rannsóknarverkefni sem unnið er að á stofnuninni.

Ekið yfir Bláfjallakvísl
Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir

Ekið á vaði yfir Bláfjallakvísl, september 2020.