Styrkir úr Nýsköpunarsjóði námsmanna

26.04.2022
Stormþulur við Sörlaskjól í Reykjavík
Mynd: Borgþór Magnússon

Eitt verkefnanna sem fékk styrk felst í að kortleggja útbreiðslu stormþular meðfram ströndum á höfuðborgarsvæðinu. Myndin sýnir stormþul við Sörlaskjól i Reykjavík.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlotið þrjá styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna, samtals rúmlega þrjár milljónir króna.

Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur það að markmiði að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla til sumarvinnu að rannsókna- og þróunarverkefnum.

Í apríl var lokið við úthlutun styrkja fyrir sumarið 2022. Alls bárust 413 umsóknir, 214 verkefni fengu styrk og þar af fékk Náttúrufræðistofnun Íslands úthlutað þremur styrkjum, hver upp á kr. 1.020.000 eða samtals kr. 3.060.000. Styrkirnir þrír verða notaðir til rannsókna á eftirfarandi:

Sjálfsáning stafafuru á Norðurlandi – svæði þar sem stafafura sáir sér út frá skógrækt verða kortlögð og umfang sjálfsáningarinnar metið. Umsjónarmaður verkefnisins er Pawel Wasowicz grasafræðingur.

Stormþulur á höfuðborgarsvæðinu – útbreiðsla stormþular meðfram ströndum á höfuðborgarsvæðinu verður kortlögð og áhrif tegundarinnar á umhverfið könnuð. Umsjónarmaður verkefnisins er Pawel Wasowicz grasafræðingur.

Þróun myndvinnslu til greininga á fléttum – þróuð verður aðferð til að greina vaxtahraða og breytingar fléttusamfélaga í Hvalfirði sem hafa verið vöktuð reglulega síðan 1976. Notast verður við tauganetsaðferð og vélrænt nám til að vinna gögn úr miklu magni ljósmynda sem teknar hafa verið á tímabilinu. Umsjónarmaður verkefnisins er Starri Heiðmarsson fléttufræðingur.