Fjöldi frjókorna yfir meðallagi í maí

07.06.2022
Vorboði í Urriðaholti 15. mars 2017. Karlreklar elris losa út frjókorn, tími frjókornaofnæmis í aðsigi.
Mynd: Erling Ólafsson

Karlreklar elris.

Frjómælingar hafa staðið yfir á Akureyri og í Garðabæ síðan í mars. Á báðum stöðum var lítið af frjókornum í lofti í mars og apríl en í maí fjölgaði þeim hratt og voru yfir meðallagi.

Á Akureyri hófust frjómælingar 16. mars og kom fyrsta frjókornið, elrifrjó, í gildruna sama dag. Eftir það mældust fá frjókorn út mánuðinn og var helmingurinn elri. Í apríl var fjöldi frjókorna var vel undir meðallagi eða 36 frjó/m3, aðallega lyng- og víðifrjó, auk nokkurra asparfrjóa. Í maí fjölgaði frjókornum til muna, fyrst asparfrjó og síðan birkifrjó, og var heildarfjöldi frjókorna í mánuðinum 1467 frjó/m3, sem er langt yfir meðaltali í maí. Um 75% frjókornanna komu í gildruna síðustu fjóra dagana í maí. Meirihluti frjókorna var birkifrjókorn (1085 frjó/m3) en aðrar frjógerðir sem mældust á Akureyri í maí voru einkum asparfrjó (176 frjó/m3), víðifrjó (47 frjó/m3) og lyngfrjó (21 frjó/m3).

Í Garðabæ hófust mælingar 22. mars og kom fyrsta frjókornið í gildruna 25. mars. Einungis tvö frjókorn mældust í marsmánuði, bæði elrifrjó. Í apríl var fjöldi frjókorna nokkuð undir meðallagi eða 34 frjó/m3). Mest mældist af lyng- og elrifrjóum. Í maí mældust 433 frjó/m3 sem er talsvert yfir meðallagi, mest var af birkifrjóum (268 frjó/m3), asparfrjóum (51 frjó/m3), lyngfrjóum (38 frjó/m3), víðifrjóum (17 frjó/m3) og grenifrjóum (12 frjó/m3).

Á báðum stöðum má búast við birkifrjókornum í lofti áfram í júní ef veðurskilyrði eru hagstæð. Í Garðabæ kom fyrsta grasfrjóið í gildruna 29. maí og mældust þau fleiri en áður hefur mælst í maí. Það gæti bent til þess að grasfrjó verði snemma á ferðinni í ár.

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2022 (pdf)