1. nóvember 2006. Ingibjörg Svala Jónsdóttir: Hvernig bregðast vistkerfi norðurhjarans við vaxandi gæsastofnum og hlýnandi loftslagi?

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Ingibjörg S. Jónsdóttir, plöntuvistfræðingur á Umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands, Keldnaholti.

Farfuglar gegna mikilvægu hlutverki við að tengja saman mismunandi lífbelti jarðar og eru gæsir þar engin undantekning. Margir gæsastofnar hafa vaxið ört undanfarna áratugi og á það einnig við um tegundir sem verpa á heimskautasvæðunum og öðrum norðlægum slóðum. Ástæður þessa eru vafalaust margar, svo sem auknar friðunaraðgerðir og loftslagsbreytingar, en það sem vegur einna þyngst er þó breytt landnýting á vetrarstöðvum gæsanna á tempruðu svæðunum. Framboð fæðu að vetri er einn helsti takmarkandi þátturinn fyrir stærð gæsastofna og hefur aukin ræktun leitt til meira framboðs af aðgengilegri fæðu. Því vaknar spurningin hvort breytt landnýting á vetrarstöðvunum muni hafa alvarleg áhrif á vistkerfi varpstöðvanna.

Ein þeirra tegunda sem hefur fjölgað einna mest er snjógæsChen caerulenscens í Norður-Ameríku. Afleiðingar fjölgunarinnar á varpstöðvum hennar sem eru á lágarktískum strandengjum Hudsonflóa létu lengi á sér standa en komu síðan skyndilega og allharkalega fram á níunda áratug síðustu aldar. Ofbeit gæsanna hefur hreinlega eyðilagt vistkerfið og rannsóknir sýna að breytingarnar eru að öllum líkindum óafturkræfar vegna saltskánar sem hefur myndast í yfirborði jarðvegsins. Eyðingin er enn í gangi og færist æ lengra inn í landið í kjölfar gæsanna. Þessir atburðir á kanadísku heimskautasvæðunum voru hvatinn að Evrópuverkefninu FRAGILE sem stendur fyrir "FRagility of Arctic Goose habitat: Impacts of Land use, conservation and Elevated temperatures". Verkefnið takmarkaðist við stofna evrópskra gæsategunda með varpstöðvar á Svalbarða (heiðagæs, helsingi, margæs) en stofnar þeirra hafa einnig vaxið mjög ört. Í verkefninu var m.a. leitað svara við þeirri spurningu hvort búast megi við svipaðri eyðileggingu vistkerfa á Svalbarða og átta hafa sér stað í Kanada.

Í erindinu gerði Ingibjörg grein fyrir FRAGILE verkefninu sem lauk formlega í lok árs 2005. Hún sagði frá helstu niðurstöðum, einkum þeim er lúta að tilraunum á áhrifum gæsabeitar og hlýnandi loftslags á gróður og aðra þætti háarktískra túndruvistkerfa.

Útvarpsviðtal við Ingibjörgu S. Jónsdóttur í norska ríkisútvarpinu, NRK P2, 20. febrúar 2006:

Om gjess, tundra og EU's landbrukspolitikk

Gæsabeitartilraun á Svalbarða
Mynd: Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Frá gæsabeitartilrauninni á Svalbarða: Helsingjar fluttir milli tilraunareita: Dries Kuijper og aðstoðarmaður hans frá háskólanum í Groningen, Hollandi, en sá hópur sá um gæsirnar.

Framleiðsla helstu fæðuplantna gæsa mæld í tilraunareitum
Mynd: Ingibjörg Svala Jónsdóttir

Framleiðsla helstu fæðuplantna gæsanna mæld í tilraunareitunum.