10. nóvember 2004. Oddur Sigurðsson: Jöklar og veðurfar

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur hjá Orkustofnun flytur erindi á Hrafnaþingi 10. nóvember 2004.

Hvernig bregaðst íslenskir jöklar við breyttu árferði?

Sagt hefur verið að jöklar séu lengi að átta sig á breytingum í veðurfari og langminni þeirra stærstu á hvörf í veðri skipti jafnvel öldum. Hegðun íslenskra jökla virðist ekki renna stoðum undir þá kenningu, því að þeir bregðast yfirleitt fljótt við loftslagssveiflum. Ástæða fyrir þessum misskilningi er að innra eðli jökla getur breyst eftir landslagi eða öðru sem er ótengt veðurfari. Óvenjuleg hegðun sumra jökla gat villt mönnum sýn í fyrstu, enda eðlilegt í fljótu bragði að tengja allar jöklabreytingar þekktum veðrabrigðum.

Snæfellsjökull
Mynd: Oddur Sigurðsson

Snæfellsjökull sýnir að bragði þegar hagur hans breytist af völdum veðurs.

Breiðamerkurjökull
Mynd: Oddur Sigurðsson

Sporður Breiðamerkurjökuls hefur hopað miklu meira á 20. öld en við mætti búast vegna þess að Jökulsárlón tekur af honum ís í stórum stykkjum.

Margvíslegir jöklar Íslands

Hér á landi eru dæmi um mjög fjölbreytilega hegðun jökla í tímans rás og verður leitast við að skýra í einstökum tilvikum hvernig á því stendur. Þorri jökla tekur strax að dragast saman þegar rúmmál þeirra rýrnar og jafnframt ganga þeir fram um leið og þeir aukast að rúmtaki. Allmargir jöklar hér á landi ryðjast fram með miklum fyrirgangi á nokkurra áratuga fresti en sporður þeirra hopar hægt og örugglega þess á milli án þess að loftslagið gefi nokkurt tilefni til slíks háttalags. Nokkrir jökulsporðar fljóta á vatni og brotna af þeim jakastykki í stórum stíl. Bráðna þeir til muna hraðar en ella og streyma hratt fram. Á Íslandi verða jöklar fyrir meiri áföllum af völdum eldgosa en nokkurs annars staðar í heiminum.

Dæmi um mismunandi jökla
Í erindinu verða sýnd dæmi um mismunandi gerðir jökla og hvernig sjá má á þeim hvert eðlið er. Þar eru m.a. Hyrningsjökull í Snæfellsjökli sem er blátt áfram í viðbrögðum gagnvart veðri, Síðujökull en hann gengur einungis fram í snöggum stökkum, Gígjökull í Eyjafjallajökli var nánast bræddur til þurrðar í eldgosi 1821–1823, Breiðamerkurjökull en úr honum sýgur Jökulsárlón merginn og tvíburarnir Hoffelssjökull og Svínafellsjökull í Hornafirði sem búa við misjafnan vöxt þótt atlætið sé svipað.

Gígjökull í Eyjafjallajökli
Mynd: Oddur Sigurðsson

Gígjökull í Eyjafjallajökli hvarf næstum alveg eftir eldgos 1821-1823. Aðrir jöklar á landinu voru þá með bústnasta móti.