12. nóvember 2008. Sigurður H. Magnússon: Gróðurbreytingar við Lagarfljót 1976-2004: Áhrif virkjunar við Lagarfoss

Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytur erindi sitt, „Gróðurbreytingar við Lagarfljót 1976–2004 - Áhrif virkjunar við Lagarfoss“, á Hrafnaþingi miðvikudaginn 12. nóvember.

Hér á landi hafa á undanförnum áratugum verið reistar allmargar vatnsaflsvirkjanir til framleiðslu á raforku. Virkjanir af þessu tagi hafa oft margháttuð umhverfisáhrif einkum vegna breytinga á vatnafari. Lón eru mynduð og rennsli breytt. Árið 1975 var Lagarfljót virkjað við Lagarfoss. Við það breyttist vatnafar og flóðamynstur í fljótinu. Vatnsborð hækkaði að meðaltali um 190 cm við Lagarfoss en um 30 cm við Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur frá upphafsárum virkjunarinnar fylgst með gróðurbreytingum og rannsakað jarðveg, grunnvatnsstöðu, beit og landbrot á láglendissvæðum við Lagarfljót þar sem áhrifanna gætir einna mest.

Rannsóknirnar spanna því yfir um 30 ára tímabil og eru ein lengsta samfellda röð vöktunar á gróðurfari á landinu. Þær sýna hvernig gróður hefur breyst eftir að Lagarfossvirkjun hóf starfsemi og veita jafnframt mikilvægan grunn að frekari vöktun við fljótið vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Skógargerði 1993
Mynd: Kristbjörn Egilsson

Gróðurbreytingar við Skógargerði. Mynd tekin 1993. Til hliðar er mynd frá sama stað, tekin 11 árum síðar

Skógargerði 2004
Mynd: Kristbjörn Egilsson

Gróðurbreytingar við Skógargerði. Mynd tekin 2004. Þekja mýrastarar hefur aukist talsvert en þekja snarrótarpunts minnkað sem rekja má til hækkaðs vatnsborðs. Grávíðir og fjalldalafífill hafa aukist, að stórum hluta vegna friðunar fyrir sauðfjárbeit

Á rannsóknasvæðunum við Lagarfljót er að finna allt frá mjög blautu votlendi upp í þurrlendi. Tegundin mýrastör var í upphafi og er enn langalgengust og þekjumest allra háplöntutegunda við fljótið. Niðurstöðurnar sýna að á þeim 30 árum sem rannsóknin nær yfir hafa við fljótið orðið verulegar gróðurbreytingar sem annars vegar má rekja til vatnsborðshækkunar, breytts flóðamynsturs og landbrots en hins vegar til minnkandi sauðfjárbeitar.

Gróðurbreytingar sem rekja má til hækkaðrar grunnvatnsstöðu voru langmestar utan við Lagarfljótsbrú og komu þær fram á blautu, deigu og allþurru landi. Þar sem vatnsborð hækkaði mest drapst gróður að mestu. Svæði vaxin flóagróðri blotnuðu enn frekar og eindregnar flóategundir eins og tjarnastör, gulstör, vetrarkvíðastör og horblaðka urðu ríkjandi í gróðri. Innan við Lagarfljótsbrú voru þessar breytingar litlar.

Lagarfljót_Rangá
Mynd: Kristbjörn Egilsson

Láglendi við Lagarfljót í Dagverðargerði í Hróarstungu. Vegna hækkunar vatnsborðs í fljótinu hafa orðið verulegar breytingar á bökkum vegna landbrots, gróður hefur eyðst í mestu lægðum og tjarnir stækkað. Land hefur einnig blotnað upp og gróður breyst

Dagverðargerði
Mynd: Kristbjörn Egilsson

Landbrot við Lagarfljót í landi Rangár. Á árunum 1975–2004 hafa á þessu svæði víðast hvar eyðst 30–60 cm á ári af bakka fljótsins

Áhrif minnkandi sauðfjárbeitar voru mjög greinileg, einkum utan við Lagarfljótsbrú en þar var mikil aukning á gulvíði, loðvíði og grávíði. Aukning birkis síðasta áratuginn (1995–2004) er af sama toga. Víðast hvar minnkaði heildarþekja mosa og fléttna sem rakin var til aukinnar hæðar og meiri þéttleika háplantna vegna minnkandi beitar og hlýnandi loftslags.

Landbrot var mest utan við Egilsstaði. Leiddar voru líkur að því að við landbrotið og þær gróðurbreytingar sem urðu af völdum vatnsborðshækkunar í fljótinu hafi talsverður hluti af besta beitilandinu á bökkum fljótsins tapast.