13. október 2004. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Örninn tekur flugið

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Ísland flytur erindi á Hrafnaþingi 13. október 2004.

Örninn er meðal sjaldgæfustu varpfugla landsins en talið er að hér séu rúmlega 60 pör fullorðin pör, auk ungfugla.

Fram á 19. öld var örninn miklu algengari og varp þá í öllum landshlutum en nú er útbreiðslan að mestu bundin við Vesturland. Vöxtur og viðkoma arnarstofnsins er lítil, þrátt fyrir alfriðun í 90 ár en þó hefur örnum fjölgað hægt og bítandi í kjölfar þess að eitrun fyrir refi var bönnuð árið 1964. Undanfarin 5–6 ár hefur varpárangur arnarins heldur batnað og stofninn vaxið hraðar en áður.

Arnarungi sem komst á legg sumarið 2004
Mynd: Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Einn 32ja arnarunga sem komust á legg í sumar, fleiri en síðan um 1910.

Litmerki á arnarunga
Mynd: Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Arnarungar voru litmerktir í fyrsta sinn í sumar. Merkin eru áberandi og hæfa sterklegum arnarklónum.

Landnám á nýjum svæðum og aldrei fleiri ungar

Þetta hefur m.a. leitt til þess að ernir hafa nú numið land að nýju á Norðurlandi eftir 100 ára hlé og einnig á Suðurlandi en þar urpu ernir síðast laust fyrir 1950. Sumarið 2004 komust 34 arnarungar á legg á landinu og hafa þeir ekki verið svo margir frá því farið var að fylgjast reglulega með arnarvarpi fyrir 45 árum. Sennilega hafa jafnmargir ungar ekki komist á legg á Íslandi síðan um 1910, en heimildir um erni eru brotakenndar fram undir 1920. 

Hverjar eru skýringarnar?

Í fyrirlestri sínum mun Kristinn Haukur rekja þróun íslenska arnarstofnsins og varpa ljósi á ástæður þess að hversu lengi það hefur tekið stofninn að ná sér eftir ofsóknir og eiturútburð á 19. öld.