16. nóvember 2016: Kerstin Gillen: Myglusveppir í íslenskum húsum

 

 

Kerstin Gillen

Kerstin Gillen

Kerstin Gillen líffræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Myglusveppir í íslenskum húsum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 16. nóvember kl. 15:15.

Í húsum þar sem raki er til staðar geta myglusveppir farið að vaxa og orðið til vandræða. Rakaskemmdir í íslenskum húsum eru algengari en margir ætla. Þannig eru rúmlega 20% húsa með sjáanlegum rakaskemmdum auk þess sem raka er að finna í mörgum húsum án þess að skemmdir hafi komið í ljós. Ekki er þekkt í hve mörgum húsum myglu er að finna. Þó er ljóst að umræða um myglusveppi hefur aukist mjög hér á landi á síðustu árum, meðal annars í fjölmiðlum. Fjöldi myglusveppasýna sem Náttúrufræðistofnun Íslands fær til greiningar hefur aukist mjög og er sýnafjöldinn 2016 að minnsta kosti tvöfaldur miðað við 2015.

Til eru margar tegundir myglusveppa og fjölbreytni þeirra er mikil. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig myglusveppir komast inn í hús, hvað þeir þurfa til að geta dafnað, hvaða aðferðir eru notaðir til að finna myglu í húsum og um mismunandi aðferðir sem notaðar eru til að greina í sundur sveppina. Þá verður fjallað um algengustu tegundir og ættkvíslir sem fundist hafa í sýnum úr íslenskum húsum. Einnig verður rætt um aðferðir til að forðast vöxt myglusveppa og hvað best er að gera þegar mygla er komin í hús.

Að búa í mygluðu húsnæði getur haft áhrif á heilsu fólks. Sumar tegundir framleiða efni sem getur haft áhrif á líkamsstarfsemi manna og annarra hryggdýra. Sum efnin geta valdið ofnæmisviðbrögðum (ofnæmisvakar), önnur eru ertandi og nokkrir sveppir geta framleitt sveppaeiturefni (mycotoxins) sem geta valdið eitrunum. Í læknisfræði eru rannsóknir á áhrifum myglu á fólk stórt rannsóknarefni og í stöðugri þróun og í fyrirlestrinum verður komið inn á hvort hægt sé að greina „myglusýkingar“ í líkamanum.

Fyrirlesturinn á YouTube

Kerstin Gillen líffræðingur greinir myglusveppi
Mynd: Kristmann Magnússon/EFLA Hús og heilsa

Kerstin Gillen greinir myglusveppi

Fjölbreyttir myglusveppir á ræktunarskál
Mynd: Kerstin Gillen

Fjölbreyttir myglusveppir á ræktunarskál