2. febrúar 2005. Guðmundur Guðjónsson: Gróðurkortagerð í hálfa öld
2. febrúar 2005. Guðmundur Guðjónsson: Gróðurkortagerð í hálfa öld
2. febrúar 2005. Guðmundur Guðjónsson: Gróðurkortagerð í hálfa öld
Guðmundur Guðjónsson, landfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Ísland flytur erindi á Hrafnaþingi 2. febrúar 2005.
Á árinu 2005 eru liðin 50 ár frá því að hafin var gerð gróðurkorta á Íslandi á vegum búnaðardeildar Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Kortagerðin hófst að frumkvæði Björns Jóhannessonar jarðvegsfræðings sem um nokkurra ára skeið hafði unnið að jarðvegskortagerð í þremur landbúnaðarhéruðum. Þar sem gróðursamfélögin endurspegluðu vel jarðveginn sem verið var að kortleggja, fékk hann þá hugmynd að gagnlegt væri að kortleggja gróðurinn með það í huga að meta beitargildi úthaga. Til liðs við sig fékk Björn, Steindór Steindórsson grasafræðing, sem rannsakað hafði gróðursamfélög víðsvegar um landið. Þeir félagar héldu upp á Gnúpverjaafrétt til að kortleggja gróður rigningasumarið 1955, ásamt þeim Ingva Þorsteinssyni og Einari Gíslasyni.

Steindór Steindórsson og Sigrún Jónsdóttir í tjaldbúðum gróðurkortamanna í óbyggðum sumarið 1965.

Gróðurkort af landi Hvamms og Hvammsvíkur í Hvalfirði frá árinu 1998.
Alla tíð síðan hefur verið unnið óslitið að gróðurkortagerð, lengstum á Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Mismikill kraftur hefur verið í starfseminni og miklar tæknibreytingar hafa orðið. Starfsemi gróðurkortagerðarinnar var flutt til Náttúrufræðistofnunar Íslands 1995 og heyrði þar með undir umhverfisráðuneytið í stað landbúnaðarráðuneytisins áður. Ástæða flutninganna var m.a. sú að beitarálag hafði minnkað og ekki var eins brýn þörf á kortlagningu gróðurs vegna beitar. Einnig hafði eftirspurn eftir náttúrufarsupplýsingum af gróðurkortunum aukist vegna skipulagsmála og mats á umhverfisáhrifum. Söfnun á upplýsingum um gróðurfar landsins féll einnig mjög vel að lagalegri skyldu Náttúrufræðistofnunar um skráningu á íslenskri náttúru.
Tveir þriðju hlutar landsins kortlagðir
Á gróðurkortum er gróið land flokkað í um 100 gróðurfélög og bersvæðisgróður er flokkaður í 10 flokka eftir landgerðum. Út frá gróðurkortunum má einnig lesa margvíslegar óbeinar upplýsingar um náttúrufar landsins t.d. jarðvegsgerð, rakastig og gróðurþekju.
Árið 2005 hafa liðlega tveir þriðju hlutar landsins verið kortlagðir í mælikvarða frá 1:20.000 til 1:40.000. Um þriðjungur kortlagða svæðisins hefur verið endurkortlagður á stafræn myndkort og lögð er mikil áhersla á að ljúka því verki. Gróðurkortin eru nú notuð sem grunnur að vistgerðakortum og er því mikilvægt að gera áætlun um að ljúka kortlagningu alls landsins sem fyrst.
Í fyrirlestrinum mun Guðmundur rekja upphaf og þróun gróðurkortagerðarinnar, lýsa stöðunni í dag og þeim notum sem höfð hafa verið af gróðurkortunum. Þá mun hann fjalla um framtíð gróðurkortagerðarinnar og áform um að ljúka gerð gróðurkorta af öllu landinu.

Starfsmenn gróðurkortagerðar NÍ við störf í Þjórsárverum 2002.