23. janúar 2013. Trausti Baldursson: Natura Ísland 2012–2015: Flokkun og kortlagning vistgerða og búsvæða dýra og plantna

Trausti Baldursson, líffræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur erindið „Natura Ísland 2012–2015: flokkun og kortlagning vistgerða og búsvæða dýra og plantna“ á Hrafnaþingi 23. janúar kl. 15:15.

Árið 2011 sótti Náttúrufræðistofnun Íslands um svokallaðan IPA styrk (Instrument for Pre-Accession Assistance) til ESB fyrir rannsóknir til að flokka og kortleggja vistgerðir og mikilvæg búsvæði dýra og plantna í samræmi við vistgerðatilskipun og fuglatilskipun ESB. Styrkumsóknin tengist aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og er hluti af því að undirbúa framkvæmd framangreindra tilskipana komi til þessi að Ísland gerist aðili að ESB. Styrkurinn var veittur Náttúrufræðistofnun í lok júní 2012. Gert er ráð fyrir að heildarumfang þess verði 4,4 milljónir evra og að styrkurinn nemi 3,6 milljónum evra til þriggja ára.

Rannsóknarverkefnið byggir á greiningu Náttúrufræðistofnunar á því hvaða vísindalegar skyldur Ísland þyrfti að uppfylla við söfnun, greiningu og flokkun náttúrufarsgagna ef Ísland gerðist aðildarríki að ESB. Greiningin leiddi í ljós að helstu verkefni Náttúrufræðistofnunar myndu fyrst og fremst tengjast innleiðingu tveggja tilskipana, þ.e. vistgerðartilskipuninni (Habitats Directive, Council Directive 92/43/EEC of 21 May 1992 on the conservation of natural habitats and of wild fauna and flora) og fuglatilskipuninni (Birds Directive, Directive 2009/147/EC of the European Parliament and of the Council of 30 November 2009 on the conservation of wild birds).

Í erindinu verður fyrst og fremst leitast við að lýsa tilurð verkefnisins og tengslum þess við tilskipanir ESB, EES samninginn og alþjóða samninga sem Ísland er aðili að. Farið verður yfir helstu markmið og tilgang rannsóknanna og stöðu verkefnisins í dag. Náttúrufræðistofnun mun á síðari stigum kynna niðurstöður rannsóknarverkefnisins.

Vistgerðarannsóknir í Natura Ísland 2012
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Gróður rannsakaður í skriðu sunnan í Grímsstaðamúla á Mýrum. Í baksýn er Hraundalshraun og Svarfhólsmúli