24. nóvember 2004. Guðmundur Guðmundsson: Tegundir af ætt diska (Pectinidae) og fjölbreytileiki

Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Ísland flytur erindi á Hrafnaþingi 24. nóvember 2004.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá framkvæmd og niðurstöðum rannsókna í flokkunarfræði íslenskra tegunda af diskaætt (Pectinidae, Bivalvia). Vitað er um rúmlega 500 núlifandi tegundir samloka af diskaætt (Pectinidae, Bivalvia) í heimshöfunum og lifa 38 þeirra í Norður-Atlantshafi og Íshafi.

Í ritinu Skeldýrafána Íslands, 1982 eftir Ingimar Óskarsson er getið um 12 tegundir af diskaætt. Í rannsóknaverkefninu Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE) fannst töluvert af skeljum þessarar ættar. Reyndust þær tilheyra 17 tegundum og var ein þeirra áður óþekkt í heiminum. Tegundir af diskaætt eru misstórar en þekktust þeirra er nytjategundin hörpudiskur (Pecten islandicus) sem getur orðið rúmlega 10 cm á lengd, en minnstu tegundirnar eru undir sentimetra á lengd og til engra nytja. Útbreiðsla þessara tegunda virðist ráðast nokkuð af umhverfisþáttum, eins og sjávardýpi, hitastigi sjávar, botngerð og fleiri atriðum.

Flekkudiskur
Mynd: Guðmundur Guðmundsson

Flekkudiskur Pecten tigerinum er gamalkunnur diskur á Íslandsmiðum. Hann er um 2 cm á lengd.

bioice_stadir_big
Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands

Á 12 árum hafa botndýrasýni verið tekin á 600 stöðum innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Tegundirnar eru ákaflega misalgengar, hvort sem litið er til fjölda einstaklinga eða fundarstaða. Einkenni nokkurra tegunda eru afar einsleit en sérkenni annarra mjög breytileg, svo þær greinast í fjölda afbrigða eða stofna. Þessir þættir, ásamt skyldleika tegunda, eru oft notaðir til að leiða líkum að svonefndum líffræðilegum fjölbreytileika. Stuttlega verður fjallað um hvort þekkingu á þessum þáttum megi nýta, ásamt öðrum upplýsingum, sem verndarviðmið.