3. apríl 2019. Borgný Katrínardóttir: Senn kemur spóinn

Borgný Katrínardóttir

Borgný Katrínardóttir líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 3. apríl 2019 kl. 15:15.

Spóinn (Numenius phaeopus) er algengur varpfugl á láglendi um land allt og hefur stofninn verið metinn um 250 þúsund varppör. Á Íslandi verpir megnið af Evrópustofninum og líklega fyrirfinnst hvergi í heiminum þéttara spóavarp. Íslenskir spóar tilheyra undirtegund sem er að langmestu leyti að finna hérlendis.

Spóinn verpur í margskonar búsvæðum, svo sem í mýrlendi, móum og graslendi. Hæstur er þéttleikinn á hálfgrónum áreyrasvæðum en algengur varpþéttleiki á slíkum svæðum er 30–40 pör á ferkílómetra.

Fyrstu spóarnir koma til landsins í lok apríl og varp hefst síðari hluta maí. Álegan tekur um 26 daga og ungar verða fleygir rúmlega mánaðargamlir. Töluverð afföll eru á eggjum og ungum og meðal helstu afræningja eru tófur, hrafnar og kjóar en einnig hefur orðið vart við að sauðkindur éti spóaegg.

Á varpstöðvum er fæðan ýmsir landhryggleysingjar, svo sem skordýr, köngulær og ánamaðkar, einnig eru ber étin í töluverðum mæli.

Fullorðnir spóar yfirgefa Ísland flestir í kringum mánaðamótin júlí/ágúst. Ungarnir fara svo af landi brott nokkrum vikum síðar og þurfa þá að reiða sig á eðlisávísunina við að rata á vetrarstöðvarnar.

Á veturna dvelja íslenskir spóar í Vestur-Afríku en nýlegar rannsóknir hafa staðfest að þangað fljúga þeir beint yfir opið haf án hvíldar.

Ísland er afar ríkt af spóum en víða er gróðurfar á kjörsvæðum tegundarinnar að breytast, meðal annars vegna minnkandi sauðfjárbeitar, dreifingar lúpínu og skógræktar. Þá hefur orlofshúsum fjölgað mjög mikið á síðustu áratugum og þrátt fyrir að ákefð í landbúnaði sé enn frekar lítil hérlendis, þá fer hún vaxandi og erlendis tengist fækkun í vaðfuglastofnum auknum umsvifum landbúnaðar.

Fyrirlesturinn á Youtube

Spói, Numenius phaeopus
Mynd: Tómas Grétar Gunnarsson

Spói (Numenius phaeopus).