31. mars 2004. Starri Heiðmarsson: Má treysta útlitinu?

Starri Heiðmarsson fléttufræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 31. mars 2004.

Tengsl útlitseinkenna og arfgerða hjá korpum (Dermatocarpon)

Fléttur eru sambýli svepps og þörungs og/eða blágrænnar bakteríu. Sem slík er fléttan ekki lífvera heldur vistkerfi en flokkunarfræðingar sem fást við fléttur eru í raun sveppafræðingar þar sem svepphluti fléttunnar ákvarðar nafn hennar. Þessi sérstaða sveppa er mynda fléttur getur valdið ákveðnum vandamálum í flokkunarfræði þeirra þar sem hinn ljóstillífandi hluti fléttunnar (grænþörungur/blágræn baktería) getur ráðið miklu um útlit hennar og því er stundum erfitt að ákvarða mörk tegunda.

Blaðkorpa
Mynd: Starri Heiðmarsson

Blaðkorpa (Dermatocarpon miniatum v. miniatum) gerð úr einum bleðli.

Blaðkorpa
Mynd: Starri Heiðmarsson

Blaðkorpa (Dermatocarpon miniatum v. compliatum) gerð úr mörgum bleðlum en fest við undirlagið í einum miðlægum nafla.

Fjölbreytt afbrigði af korpum

Korpur eru blaðkenndar fléttur af fjörusvertuætt sem þekktar eru fyrir mikinn útlitsbreytileika. Af þeim sökum lýstu fléttufræðingar fyrr á tímum miklum fjölda tegunda og afbrigða innan ættkvíslarinnar. Líklegt má þó telja að talsverður hluti þeirra sé ekki raunverulegar tegundir heldur sé aðeins um aðlögun að umhverfisaðstæðum að ræða. Einkum var lýst mörgum afbrigðum af algengustu tegund ættkvíslarinnar, blaðkorpu (Dermatocarpon miniatum), en þau afbrigði voru einkum byggð á mismunandi bleðlafjölda, áferð neðra borðs og stærð gróa.

Þarmakorpa
Mynd: Starri Heiðmarsson

Þarmakorpa (Dermatocarpon intestiniforme)gerð úr mörgum bleðlum sem oftast eru kúptir og er fest við undirlagið á mörgum stöðum.

DNA-rannsóknir á fléttum

Þegar breytileiki einkenna sem notuð eru í hefðbundnum flokkunarfræðilegum rannsóknum á fléttum, svo sem stærð og útlit bleðla, stærð gróa, litur og áferð neðra borðs o.s.frv., gefur misvísandi niðurstöður er gott að geta gripið til einkenna sem ekki eru háð vaxtarstað eða aldri einstaklinganna. Samseting erfðaefnis er dæmi um slík einkenni og með bættri tækni hafa basaraðgreiningar eða DNA-rannsóknir orðið mun fljótlegri og ódýrari. DNA-raðgreining er þannig orðin eitt helsta hjálpartæki flokkunarfræðingsins.

Megintilgangur rannsóknarinnar, sem skýrt verður frá í fyrirlestrinum, var að kanna tengsl ólíkra afbrigða blaðkorpu og tengsl hennar við líkar tegundir svo sem þarmakorpu (Dermatocarpon intestiniforme). Einnig voru sýni af fleiri tegundum tekin með, m.a. af nýlega fundinni tegund sem er algeng í suðurhluta Norður-Ameríku og líkist blaðkorpu í ytra útliti. Tengsl tegundanna voru síðan greind og þau teiknuð á þróunarsögutré.