Laukavötn
Laukavötn
V1.2
EUNIS-flokkun
Mjúkbotn – Profundal: C1.12 Rooted submerged vegetation of oligotrophic waterbodies; fjörubelti – littoral zone: C3.4 Species-poor beds of low-growing water-fringing or amphibious vegetation.
Laukavötn

Grýtt strandlengja í Leirvogsvatni á Mosfellsheiði. – Rocky shore by a heath lake in southwestern Iceland.

Tjarnalaukur og síkjamari á botni Eystra-Gíslholtsvatns í Holtum. – Littorella uniflora and Myriophyllum alterniflorum in a lake in south Iceland.
Lýsing
Fjölbreyttur hópur vatna á nokkuð grónu vatnasviði. Brattar hlíðar liggja að mörgum vatnanna. Strandlengjan er iðulega grýtt og gróðurlítil og vatnsstaða getur verið sveiflukennd.
Vatnagróður
Gróðurþekja á mjúkum setbotni er yfirleitt mikil og allmargar tegundir koma fyrir í vötnunum. Í djúpum vötnum nær gróður niður á um 20 m dýpi. Alurt, álftalaukur, tjarnalaukur og vatnalaukur eru einkennandi. Aðrar algengar tegundir eru síkjamari, flagasóley, grasnykra, þráðnykra og langnykra. Kransþörungar koma fyrir.
Botngerð
Grýtt eða malarkennt, misbreitt, fjörubelti er meðfram bökkum. Fyrir utan fjörubeltið tekur við mjúkur setbotn þar sem vatnagróður festir rætur. Grunn svæði, oft með sendnum setbotni, teygja sig sums staðar út frá bökkum og þar vaxa einkennistegundirnar.
Efnafræðilegir þættir
Vötnin eru oftast næringarefnasnauð m.t.t. fosfórs (P), niturs (N) og blaðgrænu.
Miðlunargerð vatnasviðs
Jarðvegsmiðlun á láglendi (3400), jarðvegs- og setmiðlun á hálendi (3200), votlendismiðlun á hálendi (3100). Aðrar miðlunargerðir koma fyrir.
Fuglar
Oftast lítið og fábreytt fuglalíf, helst toppönd (Mergus serrator). Við sum vötn í þessum flokki getur þó verið fuglalíf og þá endur og flórgoði (Podiceps auritus) (t.d. Sandvatn ytra í Mývatnssveit og Elliðavatn).
Útbreiðsla
Yfirleitt á láglendi, í að meðaltali um 150 m h.y.s. Nær einnig til vatna á grónum votlendissvæðum á hálendi.
Verndargildi
Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Útbreiðsla laukavatna. Flatarmál er um 61 km2, sem er um 3% af heildarflatarmáli stöðuvatna. Vötnin eru nokkuð dreifð um landið, finnst einna helst á Suðvesturog Vesturlandi, síst sunnanlands. – Oligotrophic waterbodies with rooted submerged vegetation are scattered widely in most parts of Iceland, but are more common in the western part of the country. Their total area is estimated 61 km2 (3% of Icelandic lakes).
Algengustu tegundir gróðurs – Most common vegetation species | % | |
---|---|---|
Síkjamari | Myriophyllum alterniflorum | 100 |
Flagasóley | Ranunculus reptans | 93 |
Alurt | Subularia aquatica | 73 |
Grasnykra | Potamogeton gramineus | 73 |
Þráðnykra | Stuckenia filiformis | 67 |
Álftalaukur | Isoetes echinospora | 60 |
Langnykra | Potamogeton praelongus | 47 |
Lónasóley | Batrachium eradicatum | 47 |
Tjarnalaukur | Littorella uniflora | 47 |
Vatnalaukur | Isoetes lacustris | 47 |

Fjöldi æðplantna, mosa og kransþörunga sem fundust í vistgerðinni. Súlur sýna spönn allra vistgerða og svarta þverstrikið sýnir fjölda tegunda innan vistgerðarinnar samanborið við spönnina. Talan sem er í sviga efst í hægra horninu táknar fjölda vatna innan vistgerðarinnar. – Species richness of vascular plants, bryophytes and Charales, n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Meðaldýpi; meðalþekja vatnagróðurs; sýrustig (pH); rafleiðni (ávallt leiðrétt fyrir 25°C); fosfór (P); nitur (N) og blaðgræna í vistgerðinni. Súlur sýna meðaltal ± staðalfrávik (lóðrétt strik), einnig spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir og því hægt að bera saman vistgerðina við heildarspönn allra vistgerða. – Average depth (m), average vegetation cover (%), pH, specific conductivity (μS/cm), Total-P (mg/l), Total-N (mg/l) and chlorophyll a (μg/l) shown with lines and numbers ± standard deviation, n within brackets. Bar indicates range for all habitat types.