Skógarkerfill

Skógarkerfill (Anthriscus sylvestris) hefur víða breiðst út á Íslandi í þéttbýli og í beitarfriðuðu landi til sveita á undanförnum árum. Fram undir 2005 kvað mest að honum í Eyjafirði og á höfuðborgarsvæðinu en nú er hann einnig orðinn allútbreiddur á Suðurlandi og á Vestfjörðum. Kerfillinn skýtur stöðugt upp kollinum á nýjum stöðum og er tekinn að setja svip á gróðurfar.

Líffræði skógarkerfils hefur ekki verið rannsökuð hér á landi en talsvert er til af erlendum rannsóknum um tegundina sem læra má af. Á vefsvæði NOBANIS-verkefnisins má lesa á ensku samantekt um vistfræði tegundarinnar (pdf).

Uppruni og útbreiðsla

Skógarkerfill vex villtur í Evrópu og Asíu. Hann hefur verið fluttur langt út fyrir heimkynni sín til ræktunar í görðum. Líklegt er að skógarkerfill hafi borist hingað til lands fyrir tæpri öld, en elstu heimildir um hann í gögnum Náttúrufræðistofnunar eru frá Akureyri árið 1927.

Í grein Ingólfs Davíðssonar frá árinu 1967 um ílenda slæðinga kemur fram að skógarkerfill var þá orðinn allútbreiddur og fannst í byggð í öllum landshlutum. Hafði hann breiðst ört út á árabilinu 1940–1965. Frá þeim tíma hefur kerfillinn breiðst út jafnt og þétt. Minni búfjárbeit, hlýnandi veðurfar ásamt því að tún hafa verið tekin úr ræktun skýrir að hluta aukna útbreiðslu kerfilsins. Einnig hefur áburðarnoktun við ýmiss konar ræktun og vaxandi útbreiðsla lúpínu myndað frjósamt kjörlendi sem kerfillinn nýtir sér óspart.

Einkenni og kjörlendi

Skógarkerfill er af ætt sveipjurta og er því skyldur hvönnum. Hann er jurtkenndur og stórvaxinn en við góðar aðstæður getur hann náð meira en 150 sm hæð.

Skógarkerfill fjölgar sér bæði af fræi og af rót en einstakar plöntur eru taldar fremur skammlífar eða jafnvel tvíærar. Fræframleiðsla er mjög mikil og geta fræ dreifst með fuglum, vatni og vindum auk þess sem umferð eða ýmsar aðgerðir manna, svo sem sláttur vegkanta, hafa stuðlað að útbreiðslu hans. Þær spíra af fræi, mynda blaðhvirfingu á fyrsta ári og safna miklum rótarforða, sem síðan er nýttur næsta ár til vaxtar og myndunar stöngla, blóma og fræja. Nýr stöngull vex ekki upp aftur af sömu rót, heldur myndast ný brum og rætur á gamla rótarhálsinum og þannig getur kerfilinn einnig viðhaldið sér og fjölgað með rótarskotum. Líklegt er að einhver efnaflutningur eigi sér stað innan misgamalla hluta rótarinnar sem getur orðið mjög stór og allt að 2 m að lengd. Þessir eiginleikar tegundarinnar gera hana lífseiga.

Skógarkerfill er reskitegund (þrífst vel í röskuðu landi) sem er hraðvaxta og dugleg í samkeppni við annan gróður. Hann vex best í fremur rökum og frjósömum jarðvegi þar sem gott framboð er af köfnunarefni.

Áhrif á vistkerfi og menn

Kerfillinn er fljótur til á vorin og myndar samfellda laufþekju sem skyggir á lágvaxnari tegundir sem eiga flestar erfitt uppdráttar þar sem hann nemur land. Myndar hann því tegundasnauðar breiður. Ekki er ljóst hversu lengi kerfillin getur viðhaldist í landi, en líklega er þar um einhverja áratugi að ræða. Algengustu vaxtarstaðir skógarkerfils eru gamlir garðar og tún sem hætt er að hirða um, vegkantar og skurð- og lækjarbakkar. Á undanförnum árum hefur hann víða tekið að vaxa í lúpínubreiðum þar sem nóg er af köfnunarefni. Skógarkerfillinn er hávaxnari en lúpínan og virðist eiga gott með að ná yfirhöndinni í samkeppni við hana. Auk þess er kerfillinn skuggaþolinn og getur vaxið upp af fræi inni í þéttri lúpínubreiðu.

Allt bendir til að óhindruð útbreiðsla skógarkerfils um víðáttumikil gróin svæði leiði til fábreyttari gróðurs og verulegra breytinga á dýralífi, bæði smádýra og fugla. Útivistargildi svæða getur einnig rýrnað þar sem kerfillinn breiðist um sérstaklega í blómlendi og með ám og lækjum. Gömul tún sem ekki eru lengur nytjuð eyðileggjast á fáum árum og spillast sem ræktarland nái kerfillinn yfirhöndinni. Líklega þarf að endurrækta tún ef nýta á landið á nýjan leik. Rofhætta getur aukist í landi þar sem kerfill er ríkjandi vegna þess að undirgróður er þar rýr og yfirborð bert og illa varið fyrir vatnsrofi að vetrarlagi.

Mögulegar aðgerðir

Mjög erfitt er að stemma stigu við útbreiðslu kerfilsins þegar hann er kominn í land. Besta ráðið er að koma á veg fyrir að hann nái að fella fræ og skjóta rótum. Skógarkerfill myndar ekki langlífan fræforða en rætur hans eru lífseigar. Verði hans vart á nýjum stöðum er best að eyða ungum og stökum plöntum og þannig að þær nái ekki að blómstra. Helstu ráð til að eyða honum þar sem hann hefur búið um sig er að slá a.m.k. tvisvar á sumri eða beita hann. Sennilega er það helst sauðkindin sem getur haldið honum í skefjum, nautgripir bíta hann nokkuð en hross hafa að öllum líkindum lítinn áhuga á honum. Þá er hægt að stinga upp rætur, en það útheimtir mikla vinnu og fyrirhöfn og er aðeins framkvæmanlegt þar sem um stakar plöntur eða mjög litlar breiður er að ræða.

Loks má nefna að tilraunir hafa verið gerðar til að eyða skógarkerfli með eiturefnum. Niðurstöður benda til þess að unnt sé að ná nokkrum árangri með þeim hætti en ávallt skal líta á þá leið sem neyðarúrræði.Óæskilegt þykir að beita eiturefnum á skógarkerfil þar sem hann vex í fremur rökum jarðvegi eða við lækjar- og vatnsbakka þar sem hætta er á að efnin berist út í vatn og valdi þar mengun og skaða á öðrum lífverum.