7. desember 2022. Ingi Agnarsson: Ojjj! Vísindaferð á átta fótum

Ingi Agnarsson prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands flytur erindið „Ojjj! Vísindaferð á átta fótum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 7. desember kl. 15:15.

Köngulær vekja ótta jafnt hjá mönnum sem liðdýrum. Ótti mannsins er óskynsamlegur enda getum við miklu frekar lært af köngulóm en að skaðast af þeim. Hræðsla liðdýra við köngulær er hins vegar vel grundvölluð því köngulær eru afkastamestu rándýr þeirra í flestum jarðvistkerfum.

Köngulær eru heillandi sem arkítektar og hæfileikaríkar sem verkfræðingar enda smíða þær glæsilega vefi úr silki sem er svo sterkt að mannskepnan á erfitt með að leika það eftir. Eitur köngulóa eru jafnframt áhugavert viðfangsefni í læknisfræði.

Í fyrirlestrinum fjallar Ingi í stórum dráttum um rannsóknir sínar á þessum áhugaverðu áttfættu lífverum. Hann segir frá ferðum sínum um heiminn til að 1) kanna félagslegar köngulær og samvinnuhegðun hjá köngulóm, 2) kanna líffræðilegan fjölbreytileika og líflandafræði köngulóa með áherslu á stórt samanburðarverkefni í Karíbahafinu og 3) rannsókna líffræði kóngulóarsilkis og erfðafræði sem færir okkur nær því að geta framleitt köngulóarsilki, eða lík efni, á rannsóknarstofu.