Tvívængjur (Diptera)

Almennt

Þær skiptast í tvo undirættbálka, mýflugur (Nematocera) og eiginlegar flugur (Brachycera). Þær eru með tegundaríkustu ættbálkum skordýra. Í daglegu tali kallast þær flugur og eru flestar lítil til meðalstór skordýr. Bolurinn er oftast greinilega þrískiptur. Höfuð gjarnan kúlulaga með stór augu. Liðskiptir fálmararnir eru þráðlaga á mýflugum, oft langir, jafnvel mjög langir, stuttir á eiginlegum flugum, þriðji liðurinn stór og mynda ytri liðir fíngerða svipu á honum. Munnlimir mynda oftast sograna. Tvívængjur hafa eitt par vængja, þar sem aftara vængjaparið hefur ummyndast í kylfulaga skynfæri sem kallast kólfar og hafa því hlutverki að gegna að skynja loftstrauma og láta fluguna halda jafnvægi á flugi. Í heiminum eru um 240.000 tegundir þekktar. Í Evrópu finnast 126 ættir, 49 á Íslandi, alls 424 tegundir hafa fundist, 216 innlendar (tvær að auki horfnar) og 8 sem hafa borist með vindum og fuglum, auk þeirra 6 slæðingar með varningi.

Höfundur

Erling Ólafsson 16. nóvember 2015

Biota