Hármýsætt (Bibionidae)

Almennt

Allt að 700 tegundir hármýsættar finnast í heiminum, þar af 50 í Evrópu sem flokkast í þrjár ættkvíslir. Flestar tegundanna (32) tilheyra ættkvíslinni Bibio.

Hármýstegundir eru litlar til meðalstórar mýflugur með bol allt að 10 mm að lengd, svartar, brúnar eða ryðlitaðar. Fætur að hluta til stundum ljósari en bolurinn. Umtalsverður munur er á kynjunum, karlflugur grennri en kvenflugur, með miklu stærri augu svo höfuð þeirra verður áberandi stór kúlulaga. Karlflugur mikið loðnar, kvenflugur minna. Liðir fálmara allir áþekkir, fálmarar þráðlaga en stuttir og kýttir. Langir fætur grófgerðir, einkum lærliðir þykkir.  Afturfætur sérstaklega langir og hanga niður á flugi. Langliðir fóta enda í grófum gaddi eða fíngerðari tannakransi. Lirfur í jarðvegi, lifa á rotnandi plöntum eða rótum. Þær geta verið skaðvaldar á ökrum og í ræktun grænmetis.

Fullorðnar flugur sumra tegunda nærast ekki heldur búa að orkunni sem þær hafa innbyrt á lirfustigi. Aðrar sækja í blómasafa ýmissa tegunda ekki síst sveipjurta. Hármý hefur sérstagt háttalag.  Karldýr sverma stundum samstillt í miklum fjölda í nokkurri hæð yfir jörð, láta sig falla og lyfta sér upp aftur, líkast dansandi hjörð. Þannig lokka þau til sín kvendýrin. Kynin festa sig saman á afturendunum og sleppa ekki takinu það sem eftir lifir. Hármý er annars skammlíft á fullorðinsstigi.

Á Íslandi innast þrjár tegundir hármýs, allar algengar í umhverfi okkar, í náttúru og görðum.

Höfundur

Erling Ólafsson 29. nóvember 2016.

Biota