Plöntur (Plantae)

Almennt

Í stigskiptu flokkunarkerfi Linnés var lífríkið flokkað í tvö ríki, plöntur og dýr. Plöntur hreyfa sig ekki, hafa frumuveggi og margar þeirra eru frumbjarga. Þegar á seinni hluta nítjándu aldar komu fram hugmyndir um fleiri ríki til að gera betur grein fyrir lífheiminum og 1866 stakk Haeckel upp á sérstöku ríki, Protista, fyrir einfrumunga, slímsveppi, svampa og bakteríur. Síðar voru bakteríur svo settar í eigið ríki, Monera. Á sjötta áratug síðustu aldar var stungið uppá sérstöku ríki fyrir sveppi, Mycota. Þetta fimm ríkja kerfi er það kerfi sem enn er oft notað í kennslubókum þó flestir geri sér grein fyrir annmörkum þess og að það flokkar saman ýmsa hópa sem ekki tilheyra sömu þróunarlínu, eru einætta, þ.e. innihalda alla afkomendur ákveðins forföðurs. Stungið hefur verið uppá ýmsum útgáfum af kerfum þar sem gert er ráð fyrir fleiri ríkjum eða í sumum tilfellum yfirríkjum sem ná betur að endurspegla þróunarsögu lífsins.

Höfundur

Starri Heiðmarsson 19.janúar 2016

Biota