Títlubjallnaætt (Anobiidae)

Almennt

Fjöldi þekktra tegunda í heiminum liggur ekki fyrir. Fyrir ekki margt löngu var gamalgróin þjófabjallnaætt (Ptinidae) færð undir ætt títlubjallna sem undirætt (Ptininae). Bjöllur af þessum áður aðskildu ættum eru töluvert frábrugðnar í útliti. Flestar eru þær smávaxnar og einlitar, brúnar, gulbrúnar. Á staflaga, hliðjöfnum títlubjöllum hvílir höfuð inn undir hálsskildi. Á þjófabjöllum er höfuð óhulið, inndregin skil á milli mjós hálsskjaldar og oft kúptra mun breiðari skjaldvængja. Minna þannig í forminu töluvert á dordingul. Títlubjöllur hafa fjölbreytta lífshætti. Þær lifa ýmist á plönfuleifum í niðurbrotsferli, í þurrkuðum plöntuafurðum, undir berki trjáa eða í plöntuafurðum ýmiskonar. Sumar grafa sig inn í viði, bæði í lifandi tré, húsviði og húsgögn, og aðrar viðarafurðir. Sumar lifa á uppþornuðum dýraafurðum, þurrum saur og sitthverju tilfallandi. Það gefur auga leið að þarna má finna ýmsa skaðvalda sem fylgja manninum, sumir þeirra alvarlegar meinsemdir.

Alls hafa níu tegundir títlubjallna fundist á Íslandi, átta þeirra landlægar innanhúss og ein slæðingur með varningi. Fjórar tegundanna tilheyra títlubjöllum og aðrar fjórar þjófabjöllum, allar til óþurftar á heimilum. Viðtekin tegundaheiti eru látin halda sér þó ættirnar hafi verið sameinaðar.

Höfundur

Erling Ólafsson 11. október 2016.

Biota