Kálfluguætt (Anthomyiidae)

Almennt

Kálfluguætt er tegundarík um heim allan. Fjöldi tegunda liggur ekki fyrir en þær skipta þúsundum.  Í Evrópu eru um 510 tegundir skráðar.

Flugurnar eru litlar til meðalstórar, áþekkar flugum húsfluguættar enda skyldleiki töluverður. Oftast einlitar gráar, svartar eða brúnar, stundum með gulleita fætur. Vængæðar bera ættareinkenni og neðra borð skutsins aftur úr frambol er fínhært. Margar tegundir eru afar torgreindar. Burstar á frambol  og fótum eru þar mjög mikilvægir og oft þarf að skoða strúktúra í kynfærum karlflugna. Umtalsverður útlitsmunur er á kynjum og eru kvenflugur stundum ógreinanlegar til tegunda. Kvenflugur margra tegunda eru því enn óþekktar. Karlflugur hafa stór augu sem ná saman ofan á kúlulaga höfðinu en á kvenflugum eru augun vel aðskilin.

Lirfur margra tegunda lifa í rótum og stönglum plantna og eru sumar skaðvaldar í ræktun rótarávaxta, einkum tegundir af ættinni Delia. Sumar lirfur lifa inni í laufblöðum og reklum plantna, enn aðrar á rotnandi gróðurleifum, jafnvel þangi á sjávarströndum.

Flugurnar eru mjög líflegar og áberandi í blómlendi, skógum og görðum. Þær sækja mjög í blóm, samanber fræðiheitið; gríska orðið anthos merkir blóm og myia merkir fluga.

Á Íslandi eru 32 tegundir kálfluguættar þekktar, margar þeirra afar algengar og áberandi einkum á sólríkum góðviðrisdögum.

Höfundur

Erling Ólafsson 3. janúar 2017.

Biota