Svartsnigilsætt (Arionidae)

Almennt

Ættina er að finna á norðurhveli jarðar. Fjöldi tegunda í heiminum liggur ekki fyrir en í Evrópu eru 43 tegundir skráðar. Reyndar eru ýmsar tegundir illa skilgreindar og staða sumra forma þessara snigla óljós.

Evrópskar tegundir hafa hvorki ytri né innri skel í líkama sínum. Annars staðar í heiminum finnast tegundir með leifar skelja. Sniglarnir eru litlir, meðalstórir til stórir, mest lengd á skriði allt að 250 mm.  Oft einlitir, gulir, ljósbrúnir, brúnir, rauðir, svartir, stundum tvílitir með beltum á hliðum. Kápan hylur aðeins hluta bolsins á framhlutanum og er öndunaropið þar staðsett framan við miðju á hægri hliðinni. Sniglarnir eru ávalir yfir bakið sem myndar greinilegan kjöl á ýmsum öðrum sniglum. Þeir eru yfirleitt grófgerðir, þykkir og miklir með hrjúft yfirborð, ólíkt öðrum skellausum sniglum sem hafa mýkri áferð og verða mun mjóslegnari þegar þeir skríða. Ofan á afturendanum er slímkirtill sem skilur eftir slímtaum í skriðfarinu.

Orðspor margra tegunda er illt. Þær geta verið hinir mestu skaðvaldar í ræktun matjurta og garðplantna, eru mikil átvögl sem geta étið þyngd sína á einum sólarhring.

Talið er að 6 tegundir finnist á Íslandi í það minnsta. Um þetta ríkir þó óvissa því minni sniglar ættarinnar eru hver öðrum líkir og er það ekki á hvers manns færi að draga mörkin á milli þeirra. Ein tegund, spánarsnigill, er nýlegur landnemi en engin tegunda ættarinnar er jafn illa þokkuð og hann í nágrannalöndum okkar.  

Höfundur

Erling Ólafsson 10. janúar 2017.

Biota