Lúsmýsætt (Ceratopogonidae)

Almennt

Lúsmý eru agnarsmáar mýflugur, almennt 1-3 mm, afar fíngerðar og illa sýnilegar nema helst þegar þær safnast margar saman á húð spendýra til að taka þeim blóð. Á það ekki síst við um ljósa og hárlitla húð manna. Lúsmý finnst um víða veröld enda tegundir fjölmargar og hver með sínar kröfur til aðbúnaðar. Sumar tegundir lúsmýs eru illa þokkaðir bitvargar á spendýrum, mönnum þar á meðal. Sumar geta borið skaðlega sýkla í blóðgjafa sína. Er fyrst og fremst um að ræða húsdýrasjúkdóma. Nefna má blátungusýki (bluetongue), veirusýkingu sem hrjáir einkum sauðfé, einnig nautgripi og ýmis önnur klaufdýr, villt sem alin. Einnig afríska hestasýki, arbovírus sem er skaðlegur hestum, ösnum og skyldum hófdýrum. Nærtækt dæmi er sumarexem sem stundum hrjáir íslenska hesta sem fluttir hafa verið til meginlands Evrópu. Ónefndur er þráðormurinn Mansonella sem getur sest að í sogæðakerfi mannsins og valdið svokallaðri fílaveiki (elephantiasis).

Flestir bitvargar ættarinnar tilheyra ættkvíslinni Culicoides. Kvendýrin þurfa spendýrablóð til að þroska egg. Sum lúsmý sjúga líkamsvessa úr smádýrum. Lirfur eru flestar rándýr. Bæði kyn fá einnig orku úr í frjókornum plantna. Það fer eftir tegundum bæði hvenær sumars og hvenær sólarhrings lúsmý bítur. Sumar fljúga snemma sumars aðrar síðar, sumar athafna sig að degi til, aðrar á kvöldin og á björtum nóttum, enn aðrar við sólarupprás. Mun fleirri tegundir leggjast á smádýr en stærri dýr með heitt blóð.

Algengast er að uppeldisstöðvar lúsmýs sé að finna í vatni, votlendismosum eða öðrum blautum sverði, eða hvar sem vatn safnast í holrýmum eins og holum trjástofnum og svo framvegis. Sumar tegundir alast upp rotandi plöntuúrgangi eða skít húsdýra, sumar jafnvel í safa inni í stönglum plantna eins og sveipjurta. Lúsmý heldur sig einkum nálægt uppeldisstöðvunum en getur borist víða með vindum. Flestar tegundir þroska eina kynslóð á ári. Flestar brúa vetur á lirfustigi en færri á eggstigi.

Lúsmý líkist allra minnstu tegundum rykmýs að ýmsu leyti. Sköpulag er svipað, tiltölulega stuttir vængir leggjast flatir yfir afturbol, vængæðar sérstakar, fremstu æðar enda í framrönd vængs sem sést stundum hjá rykmýi. Vængir eru ýmist hærðir eða ekki. Karldýr hafa fjaðurgreindar svipur fálmara, þó ekki sömu gerðar og einstakar fjaðurgreindar svipur rykmýskarla. Munnlimir eru mótaðir til að rista húð og sjúga upp blóðvessa.

Almennt er lúsmý mjög torgreint til tegunda. Einkennin eru einkar óljós og duga strúktúrar kynfæranna verr en hjá flestum öðrum ættum mýflugna. Vængæðar geta verið gagnlegar að vissu marki. Á tegundum með hærða vængi getur mynstur hæringar stutt greiningar. Stundum er horft til smáatriða eins og gerða hára á augum. Er þá sitthvað ónefnt.

Af lúsmýsætt hafa um 5.000 tegundir verið skilgreindar í heiminum, en skilgreiningarnar eru margar óljósar og ruglingslegar. Sérfræðingar í þessum fræðum eru fáir og alls ekki á einu máli. Í Evrópu eru skráðar um 570 tegundir í 28 ættkvíslum. Hér á landi er ættin lítt rannsökuð og því illa þekkt. fyrirliggjandi þekkingu má rekja áratugi aftur og er hún því afar ótraust. Aðeins sex tegundir voru til skamms tíma listaðar hérlendis, fjórar undir fullum tegundaheitum en tvær aðeins undir ættkvíslaheitum. Engin þessara tegunda er þekkt fyrir að leggjast á menn og önnur spendýr. Sjöunda tegundin uppgötvaðist ekki fyrr en á síðustu árum og var henni ekki tekið fagnandi.

Höfundur

Erling Ólafsson og Matthías Alfreðsson 19. júní 2019, uppfært 24. júní 2019.

Biota