Maríubjallnaætt (Coccinellidae)

Almennt

Í heiminum eru um 6.000 tegundir maríubjallna þekktar. Fræðiheitið er dregið af latneska orðinu coccineus (skarlat), enda rauður litur algengur meðal maríubjallna. Maríubjöllur eru litlar til meðalstórar (1-10 mm). Þær eru egglaga og kúptar. Margar tegundir eru litskrúðugar. Á dæmigerðri maríubjöllu eru skjaldvængir með sléttu yfirborði, rauðir á lit með svörtum deplum, hálsskjöldur og höfuð svart með hvítum blettum. Stundum er grunnliturinn gulur. Margt er þó á annan veg bæði hvað varðar grunnlit og litmynstur. Margar tegundir er einlitar, svartar, gráar, brúnar.

Maríubjöllur eru margar hverjar eitraðar. Úr liðamótum fóta seyta þær eitruðum illa lyktandi varnarvökva. Skærir áberandi litir maríubjallna eru afræningjum til viðvörunar og hafa ýmsar aðrar óeitraðar bjöllur þróað með sér eftirlíkingar af litmynstri maríubjallna. Egg og lirfur innihalda einnig eiturefnin.

Maríubjöllur eru ýmist plöntuætur eða rándýr en þær hafa sterka bitkjálka til að tyggja með. Þekkt er að maríubjöllur éti egg og lirfur eigin tegundar en algengt er að þær leggist á skjaldlýs og blaðlýs, einnig mjöllýs, mítla og ýmis fleiri smádýr. Maríubjöllur eiga þátt í að halda í skefjum fjölgun ýmissa meinsemdardýra á gróðri.

Doppur á skjaldvængjum hafa oft verið lagðar til grundvallar fræðiheitum tegunda. Grunnkunnátta í latínu er gagnleg til að skilja slíkar punktatalningar, samanber bipunctata (2), septempunctata (7), undecimpunctata (11), tredecimpunctata (13), og quattourdecimpunctata (14) svo tekin séu dæmi frá tegundum sem hér hafa fundist.

Á Íslandi hafa fundist 18 tegundir maríubjallna sem tekist hefur að nafngreina. Einungis tvær þeirra lifa hér í náttúrunni og ein að auki gæti verið að festa sig í sessi. Um það eru vísbendingar. Aðrar tegundir eru tilfallandi slæðingar einkum með ávöxtum og grænmeti, einnig innfluttum jólatrjám.

Höfundur

Erling Ólafsson 12. október 2016, 15. ágúst 2018

Biota