Birkiglyrnuætt (Hemerobiidae)

Almennt

Í heiminum eru um 500 tegundir þekktar í 28 ættkvíslum, í Evrópu 61 tegund í 7 ættkvíslum. Sumar ættkvíslir hafa víða útbreiðslu á meðan aðrar eru staðbundnar.

Þetta eru litlar eða frekar litlar netvængjur en algengustu vænglengdir eru 4-10 mm, stundum þó eitthvað lengri. Liturinn er gulur til dökkbrúnn, sjaldnar grænn. Vængir stórir og breiðir, mynda hátt bogadregið ris yfir grönnum afturbolnum og ná vel aftur fyrir hann. Ættin ber glögg ættareinkenni í flóknu vængæðakerfinu. Fremsti frambolsliður langur og grannur, færir höfuðið framarlega, augu útstæð, hvelfd, fálmarar langir og grannir.

Lirfur langar, breiðastar yfir aftari brambolsliðina og mjókkar afturbolur í hvassan enda. Skil á milli frambols og afturbols nokkuð ljós og engir burstakransar á hliðum. Langir framstæðir sveigðir kjálkar, fálmarar nokkru lengri en kjálkarnir. Bæði fullorðin dýr og lirfur lifa á ránum, aðallega á blaðlúsum. Eru sumar tegundir sérhæfðar á blaðlýs á ákveðnum trjátegundum.

Til skammst tíma var hér ein tegund af þessari ætt. Þær eru nú orðnar fjórar. Þrjár nýjar hafa sennilega borist til landsins í seinni tíð með innfluttum trjáplöntum.

Höfundur

Erling Ólafsson 10. febrúar 2017.

Biota