Garðfætluætt (Lithobiidae)

Almennt

Ættkvíslin Lithobius er dæmigerð og lýsandi fyrir ættina. Tegundirnar eru stórvaxnar, 2-5 cm á lengd og sterkbyggðar. Bolurinn brúnn á lit, gerður úr 18 liðum með 15 pörum af sterklegum fótum. Á fótum eru burstar. Höfuð og kjálkafætur stórir, fálmarar langir, margliða. Í hliðum höfuðs eru punktaugu, allt frá tveim uppi í klasa með allmörgum augum.

Margfætlurnar þurfa rakan jarðveg og leita markvisst skjóls á daginn þar sem raki er nægur undir hverju sem er lauslegu á jörðinni, undir trjáberki eða í rotnandi haugum. Þær eru á ferli að næturþeli og veiða önnur smádýr sér til matar. Margar tegundir eru algengar í byggð. Geta orðið langlífar og lifað meira þrjú ár.

Ekki liggur fyrir fjöldi tegunda í heiminum en 84 ættkvíslum hefur verið lýst. Gera má ráð fyrir að tegundirnar séu fjölmargar á heimsvísu, þar sem í Evrópu eiga aðeins fimm ættkvíslir fulltrúa og eru skráðar tegundir samt um 270 auk margra undirtegunda. Ættkvíslin Lithobius er langsamlega tegundaríkust í Evrópu. Á Norðurlöndum á aðeins þessi ættkvísl fulltrúa, alls 15 tegundir. Þrjár þeirra finnast á Íslandi, ein algeng víða bæði í byggð og náttúru, hinar fágætari.

Höfundur

Erling Ólafsson 24. janúar 2017.

Biota