Flær (Siphonaptera)

Almennt

Flær eru einsleit skordýr þar sem hver tegundin er annarri lík í sköpulagi vegna mjög sérþróaðra lífshátta. Hins vegar eru þær afar frábrugnar öllum öðrum ættbálkum. Flær eru smávaxnar, á bilinu 1,5-3,3 mm, hliðflatar og vængjalausar, brúnar, dökkbrúnar, svarbrúnar á lit. Augu eru einföld eða vantar, fálmarar stuttir, aðfelldir liggja þeir í hvilftum á hliðum höfuðs, munnlimir gerðir til að stinga og sjúga blóð. Fætur með sterkum göddum og klóm. Afturfætur sterkir stökkfætur sem duga flónum til að stökkva margfalda hæð sína og lengd. Flær eru vel skapaðar til að hanga í hárum og fjöðrum og smjúga inn í feld. Lirfur eru að gerð áþekkar lirfum tvívængja, grannar, hvítar, hærðar. Þær alast upp í hreiðrum fugla og bælum dýra.

Í heiminum eru um 2.000 tegundir þekktar. Í Evrópu finnast 7 ættir með um 280 tegundum og fjölmörgum undirtegundum þeirra. Á Íslandi eru þrjár ættir, og hafa alls 11 tegundir fundist. Ein þeirra, mannafló, er horfin og ein tegundanna er talin vera tilfallandi slæðingur.

Höfundur

Erling Ólafsson 23. nóvember 2016

Biota