Sveifflugnaætt (Syrphidae)

Almennt

Alls hefur um 6.000 tegundum sveifflugna verið lýst í heiminum og finnast þær vítt og breitt nema ekki á Suðurskautslandinu. Alls hafa um 830 tegundir verið skráðar í Evrópu.

Sveifflugur eru breytilegar að stærð og gerð. Sumar eru smávaxnar og láta lítið fyrir sér fara á meðan aðrar eru stórar, bústnar og loðnar. Sumar eru með grannan sívalan afturbol, aðrar með egglaga flatvaxinn afturbol. Höfuð er stórt með stórum hvelfdum stundum fínhærðum augum. Fálmarar eru þriggja liða með fína langhærða svipu á stórum þriðja lið.

Flestar sveifflugur eru litskrúðugar, dökkar í grunninn en með bletti, belti og rendur sem oftast eru gular, stundum öðru vísi litar. Á minna hærðum tegundum er skelin sjálf lituð en loðnar sveifflugur hafa oftast einlita dökka skel en litaða hæringu. Sumar líkjast geitungum  og býflugum og njóta verndar af því þó þær séu með öllu meinlausar. Sveifflugur má alltaf þekkja á einkennandi æð utan hefðbundinnar skipan vængæða, æð sem liggur út eftir vængnum miðjum þvert á stuttar þveræðar sem þar tengja aðrar æðar langsum eftir vængnum framan og aftan við þessa aukaæð (vena spuria).

Flug sveifflugna er einnig einkennandi. Karlflugur eigna sér yfirráðasvæði sem þær verja fyrir öðrum karlflugum. Á fluginu staðnæmast  þær í loftinu til að sýna vald sitt og fylgjast grannt með í kringum sig. Skjótast svo leiftursnöggt þegar keppandi birtist til að stugga honum burt.

Flestar fullorðnar sveifflugur nærast á blómasafa og frjókornum en fæða lirfanna er fjölbreyttari. Mjög margar tegundir éta smádýr sem sjúga næringu úr plöntum, eins og blaðlúsum og kögurvængjum, aðrar á rotnandi plöntum í jarðvegi eða tjörnum. Einnig finnast tegundir í búum býflugna og maura. Margar tegundir gegna mikilvægu hlutverki við að halda blaðlúsum í skefjum og margar eru mikilvægir frævarar. Á hvort tveggja við um margar tegundir.

Á Íslandi hafa fundist 30 tegundir sveifflugna, margar þeirra algengar og útbreiddar um land allt. Þekktar eru sveifflugur sem leggjast í langferðir. Fjórar tegundanna eru ekki taldar landlægar, öllu heldur að þær hafi borist til landsins með vindum.

Höfundur

Erling Ólafsson 29. nóvember 2016.

Biota