Veffiðrildaætt (Tortricidae)

Almennt

Veffiðrildi eða vefarar skipa tegundaríka ætt með um 10.350 tegundir sem lýst hefur verið í heiminum. Vefarar eru tiltölulega smávaxin fiðrildi. Lögun og lega vængja er nokkuð einkennandi fyrir ættina. Framrönd framvængja er bogadregin, oftast jafnt bogin þannig að röndin nær lengst fram um miðjan vænginn eða boginn er nær vængrót og röndin þá nokkuð bein þar fyrir utan. Í fyrra dæminu leggjast vængirnir í hvíld hvelfdir yfir bolinn þannig að fiðrilin verða rúnnuð að sjá. Í seinna dæminu eru vængirnir flatari yfir bolnum, minna rúnnaðir. Lögun fiðrildanna í hvíld er stundurm líkt við örvarhaus. Liturinn er yfirleitt, grár, brúnn, ljósbrúnn, ryðrauður, stundum með litskærari flekkjum og mynstri. Lirfurnar nærast á plöntum, laufblöðum, aldinum og rótum. Margar tegundir vefa saman laufblöð, gera sér nokkurs konar hús og éta svo húsið innan frá. Flestar tegundir velja sér fæðuplöntu af sérhæfni. Margir vefarar eru skaðvaldar á gróðri og til spjalla í ávaxtaræktun.

Alls hafa fundist  16 tegundir vefara á Íslandi, þar af 10 landlægar. Ein hefur borist með haustvindum og fjórar með gróðurvörum. Ein tegund er af ólíkum toga og verðskuldar tæplega línu á tegundalistanum. Um er að ræða innflutning á skondnum baunum, svokölluðum jumping beans, en þær skoppa fyrir tilstilli vefaralirfa sem grafa sig inn í þær.

Höfundur

Erling Ólafsson 8. október 2016.

Biota