Einfrumungar (Protista)

Almennt

Einfrumungar er safnheiti yfir ýmsa fjarskylda tegundahópa af lífverun sem eru aðeins ein heilkjarna fruma allan lífsferilinn, þ.e. allar einfruma tegundir, aðrar en bakteríur, fornbakteríur og sveppir. Þó eru ýmsar undantekningar, því nokkrar tegundir einfrumunga mynda sambýli gerðu úr mörgum samhangandi frumum, án þess þó að úr verði sérhæfðir frumuvefir eða líffæri. Enn aðrir, eins og slímsveppir (Mycetozoa), mynda einskonar samfrymi, þegar stakar slímfrumur renna saman og mynda allstór æxlunarfæri sem líkjast eiginlegum sveppum. Allflestir einfrumungar mynda kynfrumur og sumir hafa ættliðaskipti, þ.e. fullvaxin dýr eru ýmis einlitna eða tvílitna.  

Áður var talið að einfrumungar mynduðu einættaða flokkunarheild (monophyletic group), sem hefði þróast útfrá einum sameiginlegum forföður og aðgreinst síðar í frumdýr (Protozoa) og frumplöntur (Protophyta).  Nú bendir flest til að einfrumungar séu vanættuð flokkunareining (paraphyletic), þ.e. hópurinn inniheldur aðeins suma, en ekki alla þá afkomendur sem þróuðust útfrá einum upprunalegum móðurstofni. Einfrumungar eru í þeim skilningi fremur ósamstæður hópur sem skiptist tugi fylkinga, en innbyrðis skyldleiki þeirra er enn nokkuð á reiki.

Þekktar eru um 200.000 tegundir af núlifandi einfrumungum. Þeir lifa sjó, ferskvatni, rökum jarðvegi. Sumar tegundir geta tillífað eins og aðrar plöntur en aðrar eru ófrumbjarga dýr og taka til sín lífræna fæðu. Svonefndar augnglennur (Euglenophyta) geta hvoru tveggja, tillífað í sólarljósi og skipt yfir í ránlífi á myrkum búsvæðum. Enn aðrar stunda sníkju- eða samlíf í öðrum tegundum 

gg@ni.is

Heimildir

1. Brusca and Brusca, Invertebrates, second ed., 2003, Sinauer Press.

2. http://www.tolweb.org/Eukaryotes/3, skoðað 17.11.2015

3. https://en.wikipedia.org/wiki/Protista_taxonomy skoðað 17.11.2015

4. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC1713255/ skoðað 17.11.2015

Höfundur

Guðmundur Guðmundsson 2.desember 2015

Biota