Stökkskottur (Microcoryphia)

Almennt

Stökkskottur (Microcoryphia) eru mjög frumstæður ættbálkur vængleysingja sem var lengstum komið fyrir í ættbálki með kögurskottum sem þá gekk undir fræðiheitinu Thysanura. Nú skipa þær sinn sérstaka ættbálk. Stökkskottur hafa lítið breyst frá því að þær komu fram á sjónarsviðið með fyrstu skordýrum. Þær hafa frumstæðari kjálka en önnur skordýr. Eldra fræðiheiti er Archaeognatha sem er dregið af archaios: forn og gnathos: kjálki.

Stökkskottur hafa aflangan liðskiptan bol sem er 12–20 mm langur, breiðastur framan til, mjókkar aftur, endar í þremur margliða, þráðlaga skottum sem öll beinast beint aftur frá bolnum, miðskottið lengst. Þær eru dökkbrúnar á lit eða því sem næst svartar, stundum með ljósum flikrum. Skelin er þakin gljáandi hreistri.

Höfuðið er vel afmarkað en að nokkru hulið undir bakplötu fremsta liðar frambols. Stór samsett augu ná saman ofan á höfðinu. Einnig hafa stökkskottur depilaugu. Fálmarar eru langir og margliða, u.þ.b. jafnlangir bolnum. Bitkjálkar eru mjög frumstæðir og virka frekar eins og bor en bitfæri.

Liðskipting frambols mjög greinileg. Bakplöturnar eru stórar, ávalar og liggja langt niður með hliðum frambols. Undir þeim eru lítilfjörlegar hliðarplötur. Nokkrar litlar plötur tilheyra framlið, en aðeins ein hvorum aftari liðanna (þ.e. ein hvoru megin). Kviðplötur eru einnig litlar. Stofnliðir fóta eru stórir, skammliðir tvískiptir, fótliðir þrískiptir og klóliður með tvær klær.

Afturbolur er breiðastur fremst og mjókkar jafnt og þétt aftur. Bakplötur eru stórar en þó minni en bakplötur frambolsins. Þær eru á svipaðan hátt sveigðar niður með hliðunum og gera bolinn sívalan. Plötubúnaður á kviðnum er allsérstæður. Kviðplöturnar sjálfar eru litlar, miðlægar, en aftan á þær eru festar tvær mun stærri samhliða stofnliðsplötur sem eru hluti af merkjum eftir upprunalegan fótabúnað forverans. Á stofnliðsplötum liða 2–9 sitja síðan stílar, einn á afturjaðri hverrar plötu. Stílar þessir eru tengdir vöðvum og hreyfanlegir, eru því augljósar eftirstöðvar fóta. Mjög lítill munur er á kynfærum kynjanna en svo lítill kynjamunur bendir til þess að dýrin makist ekki með snertingu.

Stökkskottur eru mjög kvikar og snarar í snúningum og geta stokkið ef styggð kemur að þeim. Þær beita skottunum við stökkin.

Tegundafæð loðir gjarnan við forna ættbálka. Líklegt er að slíkir muni fífil sinn fegri og að farið sé að halla undan fæti hjá þeim í samkeppni við yngri og þróaðri lífsform. Alls eru þekktar eru um 420 tegundir stökkskotta í heiminum. Sárafáar finnast í nágrannalöndum okkar, t.d. aðeins þrjár í Svíþjóð. Hérlendis hefur aðeins fundist ein tegund af þessum ættbálki. Í Evrópu eru tvær ættir, önnur þeirra finnst á Íslandi og aðeins ein tegund.

Höfundur

Erling Ólafsson 30. nóvember 2015

Biota