Klaufhalar (Dermaptera)

Almennt

Klaufhalar eru meðalstór skordýr. Bolurinn er langur, frekar flatvaxinn og grannur alla leið. Samsett augu frekar lítil, langir, grannir, margliða fálmarar. Fremra vængjapar ummyndað í litlar leðurkenndar plötur sem hylja samanbrotna himnukennda afturvængi sem duga til flugs. Á afturenda eru tveir harðir óliðskiptir kítínstafir sem mynda nokkurs konar griptöng, en hún einkennir klaufhala. Klaufhalar eru næturdýr sem dyljast að degi til og sjást því sjaldan á flugi þó þeir hafi vængi sem til þess duga. Þeir eru alætur og éta jafnt plöntur sem önnur smádýr. Kvendýr margra tegunda annast egg sín og ungviði á fyrsta þroskastigi en slíkt er fágætt í ríki skordýranna. Í heiminum eru um 2.000 tegundir klaufhala þekktar. Í Evrópu eru fimm ættir, tvær þeirra hafa fundist á Íslandi, ein tegund er nýlegur landnemi og þrír slæðingar hafa verið nafngreindir.

Höfundur

Erling Ólafsson 8. febrúar 2017.

Biota