Lungnasniglar (Pulmonata)

Almennt

Áhöld eru um stöðu Pulmonata í flokkunarkerfi sniglanna. Stundum hefur þessi flokkunareining stöðu undirflokks og dettur þá Stylommatophora inn sem ættbálkur. Annars hefur Stylommatophora stöðu undirættbálks sem einnig heldur utan um íslenskar tegundir.

Lungnasniglar anda með nokkurs konar lungum. Þeir eru ýmist með skel (kuðung) eða skellausir. Möttulholið hægra megin í líkamanum þjónar sem lunga og tengist það öndunaropi sömu megin þar sem loftið streymir inn og út. Opið opnast og dregst saman eftir kringumstæðum, er stundum stórt og gapandi, stundum vart merkjanlegt. Á sniglum með stóran kuðung á baki kann opið að vera illgreinanlegt inn undir kuðunginum. Stundum eru nokkurs konar tálkn einnig til staðar í möttulholi vatnasnigla lunganu til stuðnings við súrefnisupptöku.

Vatna- og landsniglar sem fundist hafa á Íslandi tilheyra 23 ættum og eru alls 53 tegundir skráðar.

Höfundur

Erling Ólafsson 10. janúar 2017.

Biota