Kögurskottur (Zygentoma)

Almennt

Kögurskottur (Zygentoma) eru frumstæður ættbálkur vænglausra skordýra. Bolur þeirra er sporöskjulaga 8-19 mm langur, ýmist þakinn silfurgráu hreistri eða ekki, og ýmist með eða án litkorna. Bolurinn er nokkuð flatvaxinn, breiðastur framan til og mjókkar jafnt aftur, endar í þrem löngum, liðskiptum, hærðum skottum. Eru hliðarskottin því sem næst jafnlöng miðskottinu og vita þau út á við. Kögurskottur hafa langa, mjóa, margliða fálmara, sem eru ívið styttri en bolurinn. Sumar eru augnalausar en íslenskar tegundir með lítil hliðstæð samsett augu og eru smáaugun í þeim gjarnan nokkuð aðskilin. Augun ná aldrei saman ofan á höfðinu. Sumar hafa depilaugu aðrar ekki, hjá ættinni Lepismatidae mynda þau einn miðlægan díl framan á höfði. Kjálkar bíta hvor á móti öðrum, ólíkt stökkskottum en líkt og hjá þróaðri skordýrum. Frambolur hefur þrjár stórar bakplötur sem ná ekki eins langt  niður með hliðum og hjá stökkskottum og eru þrjár litlar hliðarplötur því sýnilegar. Stofnliðir fóta eru stórir og flatir, skammliðir einfaldir, fótliðir 2-5 liða, klóliður með tvær hliðstæðar klær og eina miðlæga. Bakplötur á afturbol eru flatari en hjá stökkskottum. Margar tegundir hafa leifar óliðskiptra fóta á afturbol, íslenskar tegundir tvö pör aftan til. Kögurskottur eru kvikar og snöggar í hreyfingum sem minna einna helst á hreyfingar fiska sem skjótast, þær hlaupa hratt en stökkva ekki.

Skotturnar ganga í gegnum fjölmörg þroskastig í uppvextinum með stöðugum hamskiptum. Hreistur tekur að myndast eftir þriðju hamskipti og ná tegundir ættarinnar Lepismatidae kynþroska eftir 10-14 hamskipti. Síðan verpa kvendýrin nokkrum eggjum eftir hver hamskipti. Skotturnar geta náð allt að fjögurra ára aldri með stöðugum hamskiptum allt æviskeiðið og fjölgar þeim því jafnt og þétt.

Kögurskottur eru mjög kvikar og margar felugjarnar og rakasæknar. Sumar þola þó verulegan þurrk. Þekktar eru tegundir sem lifa nær eingöngu neðanjarðar, í hellum. Sumar eru plöntuætur en aðrar alætur, sumar framleiða ensím (sellulasa) til að melta beðmi. Til eru smávaxnar kögurskottur sem lifa í búum maura og termíta og allnokkrar tegundir lifa í nábýli við hryggdýr, ekki síst manninn.

Í heiminum eru um 400 tegundir þekktar. Í Evrópu eru tvær ættir, önnur þeirra finnst á Íslandi og tvær tegundir hennar. Þær lifa báðar í híbýlum okkar. Önnur hefur lengi angrað landann en hin birtist hér á seinni árum.

Höfundur

Erling Ólafsson 16. nóvember 2015

Biota