Húsaköngulóarætt (Agelenidae)

Almennt

Í heiminum eru þekktar tegundir um 1.170 sem skipað er í  70 ættkvíslir, í Evrópu um 140 tegundir í 13 ættkvíslum.

Ættin hýsir margar stórar tegundir köngulóa. Þær minnstu hafa þó aðeins um 4 mm langan bol en þær stærstu allt að 20 mm. Síðan bætast við myndina langir fætur og getur fótahaf náð allt að 10 cm. Höfuðbolur hækkar nokkuð fram og mjókkar og eru fremst alls átta augu í tveim láréttum röðum. Afturbolur er egglaga. Köngulærnar eru oftast brúnar á lit en bæði á frambol og afturbol má greina mynstur í mismunandi tónum, stundum gulleitu mynstri á afturbol.

Mjög sprettharðar köngulær, sérstaklega þegar þær eru í vef sínum. Þær spinna mikla og flata vefvoð yfir undirlagið með trekt í endanum þar sem þær halda til. Vefurinn er ekki límkenndur en alsettur smáþráðum sem þvælast fyrir fótum fórnarlamba sem kunna að skríða inn á eða falla á voðina. Köngulóin skynjar titringinn, skýst fram á leifturhraða og drepur bráðina með biti sínu. Dregur hana síðan með sér inn í trektina og gæðir sér á henni þar. Fer það eftir tegundum hvar vefur er staðsettur. Hann getur verið í grasi eða runngróðri eða jafnvel innanhúss. Kvendýr eru mun hæfari til að gera atlögur úr launsátri en karldýr sem eru gjarnari á að ráfa um frekar en hanga allan sinn tíma í vef. Sjónin er góð og köngulærnar skynja vel birtubreytingar eins og gerist og gengur hjá hraðskreiðum köngulóm. Þær eru því snöggar að skjóta sér undan í öryggi ef skuggi færist yfir. Þær koma sér því oft undan löngu áður en „skugginn“ verður þeirra var.

Köngulær þessar eru okkur meinlausar þó þær bíti. Þó er ein útlend tegund grunuð um að vera varasöm. Ýmsar tegundir halda sig gjarnan í húsum flestum til armæðu. Hins vegar eru þær þar hinar gagnlegustu með að veiða önnur kvikindi sem frekar væri ástæða til að hafa ímugust á.

Á Íslandi finnast þrjár tegundir í húsum en til skammst tíma voru þær taldar fimm. Nýjar rannsóknir leiddu til þess að þrjár tegundanna okkar voru sameinaðar í eina (sjá skemmukönguló).

Höfundur

Erling Ólafsson 1. febrúar 2017.

Biota