Slæðufiðrildaætt (Crambidae)

Almennt

Slæðufiðrildaætt er tegundarík með um 11.630 tegundir þekktar í heiminum en tegundir hennar voru lengstum hafðar í ætt með glæðufiðrildum  (Pyralidae). Enn hallast margir að því svo skuli áfram vera. Tegundir slæðufiðrilda eru um tvöfalt fleiri en glæðufiðrildin.

Fátt skilur þessar tvær ættir að en helst er það hljóðhimnueyra sem staðsett er fremst á hliðum afturbols á slæðufiðrildum en glæðufiðrildi hafa ekki. Annars eru flest almenn drög sameiginleg þessum tveim ættum. Slæðufiðrildin eru einnig frekar smávaxin eða smávaxin fiðrildi, vængir misbreiðir, stundum allbreiðir og leggjast flatir yfir bolinn í hvíldarstöðu og mynda þríhyrnulaga form fiðrildisins. Á öðrum leggjast vængir íhvolfir, jafnvel samanbrotnir yfir afturbolinn og gera formið staflaga. Kjálkaþreifarar skaga langt fram úr höfðinu neðanverðu. Grannir langir fálmarar leggjast langs aftur eftir bakinu í hvíld. Sumar tegundir skarta fjölbreytilegum litum, önnur ekki, en litmynstur eru oftast þannig að þau auðvelda fiðrildunum að dyljast í hvíld.

Á Íslandi hafa fundist sjö tegundir slæðufiðrilda. Aðeins tvær þeirra finnast í náttúrunni og tvær berast reglubundið til landsins með haustvindum. Ein tegund var á tímabili til vansa í gróðurhúsum en óvíst er hvort hún sé enn við lýði. Tvær tegundir hafa borist með innfluttum plöntum en ekki náð fótfestu.

Höfundur

Erling Ólafsson 5. október 2016.

Biota