Laugaflugnaætt (Ephydridae)

Almennt

Alls eru þekktar um 2.000 tegundir laugaflugnaættar í heiminum, þar af um 340 í Evrópu. Allar tegundir eru smávaxnar (mest um 7mm), sumar agnarsmáar, brúnar, gráar, svartar. Flugurnar eru breytilegar í útliti, höfuðlag oft sérstakt, oft með framstætt andlit, stundum mjög framstætt og líkist þá höfuðlagi froska. Vængir eru oft einlitir glærir, stundum með dekkra mynstri, stundum dekkri vængir með ljósum dílum.

Algengast er að flugurnar haldi sig í raka, á sjávarströndum og vatnsbökkum, við laugar og lindir, og eru lirfur þá í þörungagróðri í yfirborði vatns eða í blautri eðju á bökkunum. Einnig finnast tegundir í þurrlendi, með lirfur sem grafa sig í vefi plantna. Sennilega á engin ætt fulltrúa sem finnast við eins ólífvænlegar aðstæður og ætt laugaflugna. Tegundir hafa aðlagast lífi í yfirsöltum stöðuvötnum, olíupollum á olíuborsvæðum, hlandskálum á almenningssalernum og funheitum laugum. Flugur finnast einnig í gróðurhúsum þar sem þörungagróður þrífst í bleytu og frárennslum.

Á Íslandi finnast 12 tegundir laugaflugna. Ein þeirra er sérstaklega athyglisverð. Auk þess að finnast í af venjulegri frumgerð við kaldar aðstæður hefur hún þróast í breytileg afbrigði á jarðhitasvæðum.

Höfundur

Erling Ólafsson 13. desember 2016.

Biota