Garðaklaufhalaætt (Forficulidae)

Almennt

Ættin er sú tegundaríkasta í ættbálki klaufhala með yfir 460 tegundir þekktar í heiminum í 66 ættkvíslum. Í Evrópu eru 83 tegundir í 21 ættkvísl.

Almenn lýsing á ættbálkinum á fyllilega við um þessa ætt klaufhala. Til að greina ættina frá öðrum ættum þarf að skoða smáatriði í gerð fóta. Endaliðir fótleggjanna (svokallaðir fótliðir) eru þrír, 2. liður breiðastur, stystur, íhvolfur og liggur fram undir langan og mjóan 3. lið. Því er öðru vísi háttað hjá öðrum ættum.

Eins og aðrir klaufhalar nærast þessir á flestu tilfallandi jafnt plöntu- og dýrakyns og lífrænum efnum í jarðvegi og rotnandi laufblöðum á jörðu. Kvendýr annast egg sín þar til þau klekjast og síðan ungviðið þar til það verður sjálfbjarga. Ungviðið líkist fullorðnu dýrunum en er vængjalaust. Á lokastigi ungviðis hafa vængvísar myndast. Sumar tegundir kunna að reynast minniháttar meinsemdir í ræktun ávaxta og grænmetis. Þær gera þó mun meira gagn en ógagn í ræktun með því að veiða meinlegri smádýr sér til matar.

Á Íslandi hafa fundist þrjár tegundir ættarinnar, ein sem numið hefur land á seinni árum og tveir slæðingar með varningi, annar frá Suður-Evrópu, hinn frá Norður-Ameríku.

Höfundur

Erling Ólafsson 8. febrúar 2017.

Biota