Grábyttuætt (Limnephilidae)

Almennt

Ein tegundaríkasta ætt vorflugna, útbreidd um norðanvert norðurhvel. Aðeins fáeinar tegundir er að finna í hitabeltinu og á suðurhveli. Fjöldi tegunda í heiminum liggur ekki fyrir en ættkvíslir eru um 100 talsins. Í Evrópu eru skráðar rúmlega 300 tegundir í 44 ættkvíslum.

Vorflugur eru meðalstór til allstór skordýr, brúnleit á lit. Vængir stórir, framvængir mjóir en breikka hægt út til endannna, stundum með ljósum flikrum. Afturvængir breiðir en liggja samanlagðir langsum undir framvængjunum þegar vorflugan situr. Þá leggjast vængirnir í ris yfir afturbolinn og ná vel aftur fyrir hann. Sitjandi vorflugan er örvaroddslaga, mjó fremst og mjókkar jafnt aftur að ávölum eða odddregnum enda aðfelldra vængjanna. Þær minna töluvert á fiðrildi, enda er þar nokkur skyldleiki, en bolur og vængir vorflugna eru hærðir, ekki hreistraðir eins og á fiðrildum. Fálmarar mjög langir og grannir, langliðir fóta með sterkum burstum og mismörgum löngum sporum á neðra borði.

Grábyttuætt er ein þeirra ætta vorflugna þar sem uppeldisstöðvar lirfanna eru í vatni, bæði kyrrstæðu og rennandi. Lirfurnar byggja um sig hólk eða hús úr efniviði úr umhverfinu, ýmist úr plöntubútum eða misgrófum sandkornum, jafnvel smáskeljum, sem þær festa saman með silkispuna. Hver tegund byggir sína gerð af húsi sem þó getur verið breytileg eftir þroskastigum. Lirfurnar nærast á ýmsu, ekki síst allskyns þörungaskrapi af botni, einnig á ránum. Það tekur þær allt að þrjú ár að vaxa upp en í flestum tilfellum tekur lífsferillinn eitt ár. Lirfurnar hafa harða höfuðskel og þrjú pör þroskaðra fóta. Bolurinn er mjúpur og treystir lirfan á húsið sem vörn. Fullvaxin færir hún sig upp að yfirborði og púpar sig þar inni í húsinu.

Allas finnast  10 tegundir á Íslandi, flestar dreifðar um land allt, margar algengar, aðrar fágætari. Lirfur flestra alast upp í kyrrstæðu vatni, jafnvel í ísöltu við sjó, aðrar eru í straumvatni.

Höfundur

Erling Ólafsson 13. febrúar 2017.

Biota