Kampaskottuætt (Machilidae)

Almennt

Alls finnast í heiminum um 250 þekktar tegundir af stökkskottum sem eru mjög frumstæð skordýr. Í Evrópu eru 196 tegundir skráðar í 20 ættkvíslum.

Sívalur bolurinn er grár eða brúnleitur, sprengdur. Hann er langur, breiðastur aftan við frambol, grennist jafnt aftur og endar í þrem skottum þar sem miðskottið er langlengst, svipað langt og bollengdin. Hliðarskottin (cerci) liggja aftur en beinast ekki út til hliðanna. Frambolur er kýttur, með áberandi kryppu, þakinn hreisturflögum. Höfuð frekar lítið með tveim stórum samsettum augum sem taka mest af kollinum og snertast oftast. Mjög langir fálmarar mjókka fram. Mjög langir þreifarar liggja fram á milli fálmaranna en dýrin halda þeim gjarnan krepptum inn undir hausinn. Stökkskottur taka litlum sem engum myndbreytingum á þroskaferlinu.

Á öllum stigum nærast stökkskottur á ýmsu plöntukyns eða á hræjum. Margar tegundir finnast á grýttum ströndum þar sem þær leynast afar vel í grjótinu eins og þær eru litar. Aðrar finnast í gróðurlendum inn til lands. Þær eru mjög hraðskreiðar og taka undir sig stökk á flótta. Mökun er óbein. Karldýr skilar frá sér sæðisdropa á undirlagið sem kvendýr síðan pikkar upp. Sum spinna silkiþráð út frá bögglinum til að leiða kvendýr að honum eða koma honum fyrir á stilki.

Á Íslandi finnst aðeins ein tegund stökkskottna og er hún bundin við sjávarstrendur, bæði strandlínur nútímans og eldri strandlínur sem færst hafa innar í land.

Höfundur

Erling Ólafsson 9. febrúar 2017.

Biota